145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda.

797. mál
[23:20]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú ekki alveg nógu gott þegar hv. þingmenn tala með þeim hætti sem hv. þingmaður gerði hér og taldi að frumvarpið sneri einhvern veginn að því að skólarnir færu ekki í þrot. Ég hefði nú ætlast til þess að hv. þingmaður hefði í það minnsta kynnt sér efni frumvarpsins úr því að hann virðist hafa kynnt sér sögu málsins. Það snýr ekki að þessu með þeim hætti sem hv. þingmaður gefur hér í skyn.

Þegar ég talaði um að það væru sanngirnisrök hjá Reykjavík sneri það nákvæmlega að einum þætti. Það ætti hv. þingmaður að vita, sem virðist hafa kynnt sér málið ágætlega, en það snýr að því að Reykjavíkurborg hafði sagt: Okkur finnst óeðlilegt að við þurfum að fjármagna og reiða fram fjármagn fyrir nemendur sem koma úr öðrum sveitarfélögum. Það má finna ákveðna sanngirni í því sjónarmiði, en það var engin sanngirni og enginn metnaður í því sjónarmiði að taka í burtu þá fjármuni sem fóru til þessa náms eftir að samkomulagið var gert 2011.

Af því að hér er talað um kjark, hvenær ætlar hv. þingmaður að hafa kjark til þess að fordæma þá sem eru í forustu í Reykjavíkurborg fyrir það hvernig staðið var að túlkun á því samkomulagi sem hæstv. ráðherra gerði í þeirri ríkisstjórn sem hann sat sjálfur í? Hvenær ætlar hv. þingmaður að hafa kjark til þess að segja að það sé enginn bragur að því að í höfuðborginni sé ekki boðið upp á tónlistarnám á framhaldsstigi, að ekki sé boðið upp á (Gripið fram í.) framhaldsnám? (Gripið fram í.) Skil ég það rétt að hv. þingmaður hafi ekki kjark til þess að standa upp og segja: Það er óeðlilegt og rangt að Reykjavíkurborg hafi ákveðið að túlka það samkomulag sem gert var í tíð hans í ríkisstjórn, af ráðherra sem sat með honum í ríkisstjórn þannig að stórslys hefur orðið í tónlistarskólum í Reykjavík? Hefur hv. þingmaður virkilega ekki kjark til þess að lýsa því yfir? (Gripið fram í.) Það er ekki hægt að halda því fram að túlkun Reykjavíkurborgar á því samkomulagi sem gert var árið 2011 sé á ábyrgð þess sem hér stendur. Ég túlka það samkomulag með ákveðnum hætti. (Forseti hringir.) Hæstv. fyrrverandi ráðherra túlkaði það með ákveðnum hætti.

Virðulegi forseti. Sökin liggur alveg augljóslega á ákveðnum stað. (Forseti hringir.) Ég vona að (Forseti hringir.) hægt sé að setja þau mál öll fyrir aftan okkur og (Forseti hringir.) horfa til framtíðar á grundvelli samkomulags sem búið er að gera og þeirra fyrirætlana sem nú eru um nýjan tónlistarskóla. (Gripið fram í.)