145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda.

797. mál
[23:23]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er hálfleiðinlegt að vera að ræða þetta mál seint á kvöldi seint á þingvetri því að þetta er auðvitað mál sem við ættum að gefa okkur tíma í að ræða. Ég ítreka það sem ég sagði áðan í andsvari, mér hefði þótt bragur að því ef hæstv. ráðherra hefði að eigin frumkvæði — því að hér hafa auðvitað verið sérstakar umræður og fyrirspurnir af hálfu margra hv. þingmanna til hæstv. ráðherra um stöðu þessara mála — komið og gefið þinginu skýrslu eftir gerð þessa nýja samkomulags um miðjan apríl. Hæstv. ráðherra er fullkunnugt um að margir hv. þingmenn hafa áhuga á þessum málum. Það hefði verið bragur að því þó að hæstv. ráðherra þurfi þess ekki eins og hann kom rækilega inn á í sinni ræðu.

Þetta snýst ekki um það hvaða lagarammi nákvæmlega okkur er settur heldur hvernig samstarf framkvæmdarvaldið vill eiga við löggjafarvaldið í ljósi þess sem ég nefndi líka áðan í andsvari að í þessu samkomulagi sem hægt er að finna á netinu, vissulega, eru boðuð frumvörp, ekki bara þetta frumvarp um breytingar á ýmsum lögum sem snúa að verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga heldur einnig frumvarp til laga um tónlistarnám sem hæstv. ráðherra hefur nú upplýst, sex vikum síðar, að muni ekki koma fram á vorþingi. Það er fullkomlega eðlilegt, vil ég segja, hjá þeim hv. þingmönnum sem hér sitja að hafa áhyggjur í ljósi hins fræga samkomulags 2011. Því fylgdu vissulega peningar, bæði í formi breyttrar verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga og í formi nýrra fjármuna frá ríkinu, 250 milljóna nýrra króna, eða samanlagt 480 millj. kr. sem komu til viðbótar í tónlistarnámið. Þannig að það komu að sjálfsögðu fjármunir og að sjálfsögðu stóð síðasta ríkisstjórn við það samkomulag sem hún skrifaði undir. Hluti þeirra fór í gegnum verkaskiptingu og hluti þeirra var nýtt fjármagn. Það sem var athugavert við það var hins vegar að þá hófust deilur sem hæstv. ráðherra hefur farið yfir að enduðu í dómsmáli eins tónlistarskóla hér í bæ við Reykjavíkurborg um það hvort ríkið hefði í raun og veru með samkomulaginu tekið ábyrgð á framhaldsstiginu, þó að sá málflutningur hafi svo breyst. Að sjálfsögðu var það aldrei ætlunin.

Ég er hér með samkomulagið frá 2011 fyrir framan mig þar sem þetta er algerlega skýrt. Rætt er að með samkomulaginu sé lagður grundvöllur að, með leyfi frú forseta: „eflingu tónlistarnáms með aðkomu ríkissjóðs að kennslukostnaði í tónlistarsjóðum og gera nemendum kleift að stunda hljóðfæranám á framhaldsstigi og söngnám á mið- og framhaldsstigi óháð búsetu“. Þetta eru vistarböndin sem var vitnað í áðan sem höfðu verið umdeilanleg milli sveitarfélaga, ekki milli ríkis og sveitarfélaga heldur milli sveitarfélaga, í mörg ár þar á undan. Í samkomulaginu er líka talað um jöfnun aðgengis annarra nemenda til tónlistarnáms óháð búsetu og efnahag og síðan er vitnað til nýs frumvarps til laga um tónlistarskóla, sem ég verð að viðurkenna að ég náði ekki að klára sem ráðherra og hafði raunar verið á þingmálaskrám menntamálaráðherra sem á undan mér sat líka. Svo lengi hefur þetta mál varað. Það hefur farið í gegnum ansi marga ráðherra.

Síðan urðu þessar deilur eða hvað við viljum kalla það um ólíkar túlkanir á samkomulaginu. Við erum búin að nota talsverðan tíma á þessu kjörtímabili í að rifja það allt saman upp. En það sem eftir stendur er að núverandi hæstv. ráðherra hefur haft uppi fyrirheit um að þessi mál verði leyst til frambúðar. Hann orðaði í fyrra hugmyndir sínar um nýjan framhaldsskóla á sviði tónlistar sem hann fékk ágætisviðbrögð við úr þessum sal ef ég man rétt. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson las upp úr ræðum þar sem hann tók einmitt vel í þessar hugmyndir. En að sjálfsögðu er eðlilegt að þingmenn vilji vita hvernig að því máli er staðið, hvernig eigi að gera það. Hæstv. ráðherra kemur hér upp og segir: Það er búið að ganga frá þessu, búið að bjóða þetta út. Ég gat ekki heyrt betur en að hann segði það. Að sjálfsögðu höfum við hv. þingmenn áhuga á að vita hvernig staðið var að þessu máli, hvaða samráð var haft. Í þessu frumvarpi kemur ekkert fram um neitt samráð t.d. við samtök tónlistarskóla, tónlistarskólakennara eða tónlistarskólastjóra. Ég veit ekki hvort samráð hefur verið haft við þessi samtök um stofnun þessa nýja skóla. Það væri gott að vita það frá hæstv. ráðherra. Í nýja samkomulaginu er líka talað um að fyrirhugað sé þetta nýja frumvarp. Hæstv. ráðherra, eins og ég kom að áðan, hefur sagt að það sé ekki á leiðinni. Hann segir að það muni ekki verða bitbein en ég vil bara minna á að það var haft að bitbeini í samkomulaginu 2011.

Þannig að allar þessar spurningar sem hér er verið að spyrja eru fullkomlega eðlilegar og réttmætar. Það er eðlilegt að við spyrjum þessara spurninga í ljósi þeirrar stöðu að þetta samkomulag er gert og kemur svo inn í þingið sex vikum síðar. Það hefði farið betur á því, frú forseti, að hæstv. ráðherra hefði einfaldlega komið eftir að hann skrifaði undir samkomulagið og gert okkur grein fyrir efnisatriðum þess, hvaða lagabreytingar væru fyrirhugaðar og hvernig nákvæmlega yrði staðið að þeim. Vissi hann þá að það yrði bið á því frumvarpi sem skrifað var undir að kæmi fram á vorþingi? Getur hæstv. ráðherra útskýrt af hverju það verður bið á því? Hann sagði áðan að það kæmi ekki núna. Af hverju ekki? Hvað hefur breyst frá 16. apríl fyrir sex vikum? Hvað hefur breyst? Eru einhverjar deilur milli aðila um það hvernig þeir sjá þetta mál fyrir sér? Þetta eru fullkomlega eðlilegar og réttmætar spurningar, frú forseti.

Ég verð að segja að mér finnst leiðinlegt að upplifa í þessu mikilvæga máli, sem er mikilvægt ekki bara fyrir menningu þessa lands heldur fyrir samfélagið allt, hvernig það hefur orðið tilefni deilna og átaka milli ríkis og Reykjavíkurborgar. Það er mjög dapurlegt. Það hefur haft mikil og erfið áhrif fyrir tónlistarskóla í höfuðborginni. Þess vegna hlýt ég að spyrja eftir þá sögu: Af hverju og hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir það til lengri tíma? Er hæstv. ráðherra sannfærður um að þessi framlenging á verkaskiptingu dugi til að koma í veg fyrir þá stöðu til lengri tíma?

Hæstv. ráðherra segir: Það er verið að leysa málið varanlega. Þarf ekki frumvarp til laga um tónlistarmenntun til að leysa það varanlega? Er ekki staðan sú að sveitarfélögin hafa bent á að þó að verkefnið sé á borði sveitarfélaganna sé það ekki skylda þeirra að reka tónlistarskóla eða öll stig tónlistarskóla? Þarf að skýra það í frumvarpi? Er þetta ekki sú umræða sem við þyrftum að eiga í þingsal til að við hv. þingmenn áttum okkur á stöðunni? Ef við sjáum fram á það eftir kosningar í haust að hér komi nýr ráðherra, án þess að ég viti nokkuð um það, mun sá ráðherra verða fjórði mennta- og menningarmálaráðherrann í röð með það á sinni þingmálaskrá að fram komi frumvarp um tónlistarmenntun til að eyða einmitt þessari óvissu? Þetta eru eðlilegar spurningar og hefði verið gott að eiga þetta samtal í dagsbirtu í tengslum við samkomulagið, þó að það sé engin lagaskylda í raun og veru á ráðherranum að koma hér og leita einhvers leyfis. Það er enginn að tala um að ráðherrann þurfi að leita leyfis til að stofna nýjan framhaldsskóla. Það er ekki svo. Þetta er bara eðlilegt samtal sem löggjafarsamkundan þarf að eiga, ekki síst vegna þeirra neikvæðu afleiðinga, getum við sagt, sem urðu því miður af þessu samkomulagi. Ég get bara sagt að minn hugur og allra þeirra sem tóku þátt í því, Sambands íslenskra sveitarfélaga og þeirra ráðherra sem komu að málinu, stóð svo sannarlega til þess að samkomulagið ætti að verða til eflingar tónlistarnámi.

Ég vil segja það, af því að ég ætla ekki að lengja þessa umræðu og hef kannski talað bara of oft um málið í þinginu þannig að það er nánast ekki til sérstakra bóta, að það er miður hvernig það fór. En ég lýsi áhyggjum mínum af þessu þó að ég átti mig á þeirri stöðu sem uppi er og að ákveðin nauðsyn sé á því að greiða fyrir málinu þannig að við stefnum ekki skólunum í hættu og vanda. Þá lýsi ég yfir áhyggjum mínum af því að þetta er spurning sem við þurfum að fá svar við og væri gott að fá svar við í einhvers konar skýrsluformi hvort við séum ekki samt í þeirri stöðu að það muni þurfa frumvarp til laga um tónlistarmenntun til að skapa sátt um þetta mál til frambúðar, að það muni þurfa einhvern grundvöll sem aðilar málsins eru sammála um að sé ásættanlegur. Þá er ég ekki bara að tala um ríki og sveitarfélög heldur líka þau samtök kennara, skólastjóra og skóla sem þurfa að koma að málum og þarf að leita til áður en þingið til að mynda tekur afstöðu til frumvarps til laga um tónlistarnám.

Frú forseti. Ég verð eiginlega hálfmiður mín yfir að við séum að ræða þetta því að ég get fullyrt að margir hafa haft góðan hug í þessu máli og hefur þótt leitt að sjá hvernig það hefur þróast. Ég hefði kosið að við værum á þessum tímapunkti að ræða framtíðarstefnumótun fyrir tónlistarnám, að við værum ekki í bráðabirgðalausnum, að við værum að horfa á lagagrundvöll til framtíðar sem skýrði þessi mál betur. Ég hef sjálf verið þeirrar skoðunar, þó að það skapi væntanlega einhverjar flækjur í kerfinu, að það sé umhugsunarefni af hverju sumt framhaldsstig sé á hendi sveitarfélaganna eins og í tónlistarnáminu þegar annað framhaldsstig eins og í almennum framhaldsskólum er á hendi ríkisins. Erum við að horfa á það með hugmyndum hæstv. ráðherra um nýjan framhaldsskóla á sviði tónlistar að sú breyting verði á einhvern hátt undirstrikuð í frumvarpinu sem er boðað í samkomulaginu? Þetta eru grundvallarspurningar sem þingið á að vera að ræða og ekki ræða í því bútaformi sem hér er til umfjöllunar til þess að tryggja jöfnunarsjóði lagastoð til þess að geta gengið frá greiðslum sínum til tónlistarskólanna einu sinni enn.

Ég leyfi mér að segja að mér finnst staða þessa máls nokkuð dapurleg, sérstaklega í ljósi þess að okkur öllum sem tölum í málinu er umhugað um framtíð tónlistarmenntunar, framtíð tónlistarnáms í landinu sem er mikilvæg fyrir fjölskyldurnar í landinu, börnin í landinu, menninguna, atvinnulífið. Þetta er gríðarstór atvinnuvegur líka. Hann sprettur ekki upp úr engu. Hann sprettur upp úr þessum frábæru skólum sem við eigum. Það er tónlistin sem er að vekja athygli á Íslandi, laða hingað ferðamenn og gera þetta land svo miklu skemmtilegra og betra að öllu leyti. Það eigum við skólunum að þakka. Þannig að auðvitað vildi maður óska að umræðan gæti snúist meira um það frekar en verklag og vinnulag. Og ég brýni alla aðila máls til að velta því fyrir sér, frú forseti.