145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Sem fulltrúa í þverpólitískum hópi á Alþingi sem lætur sig málefni barna og ungmenna sérstaklega varða gladdi það mig mjög að sjá að ákveðið hefur verið að reisa barnahús að íslenskri fyrirmynd í 30 borgum í Svíþjóð. Í viðtali við fjölmiðla í Svíþjóð sagði Svíadrottning að íslenska Barnahúsið væri frábær hugmynd en hún flutti ávarp á norrænu barnaverndarþingi nýlega og færði Íslendingum sérstakar þakkir fyrir að hafa kynnt Barnahús á Norðurlöndum. Fleiri lönd vilja nú bætast í hópinn, Bretar, Litháar og Kýpurbúar.

Barnahús sinnir málefnum barna sem hafa sætt kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Þar er hægt að hafa einn vettvang fyrir þá sem bera ábyrgð á rannsókn og meðferð þessara mála, svo sem dómara, ákæruvalds, lögreglu, lækna og barnaverndaryfirvalda.

Hugsið ykkur hvað það er miklu betra fyrir barn í þessum ömurlegum aðstæðum að hægt sé að taka viðtöl við það af hálfu allra þessara aðila á einum og sama staðnum þar sem umhverfið er hlýlegt og sniðið að þörfum barnsins í stað þess að barn í áfalli þurfi að ganga á milli stofnana í réttarkerfi okkar.

Íslendingar mega svo sannarlega vera stoltir af því frumkvöðlastarfi sem fólst í stofnun Barnahúss með hagsmuni barna að leiðarljósi og láta einmitt þetta frumkvöðlastarf vera leiðarljós áfram í að tryggja sem best hag barna hér á landi.


Efnisorð er vísa í ræðuna