145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Málefni Vestfjarða eru oft í umræðunni og því miður oft vegna mikillar fólksfækkunar á Vestfjörðum. Komið hefur fram að fólksfækkun á Vestfjörðum frá árinu 1998 er mikil. Íbúar voru þá 8.500 talsins en í dag eru þeir 6.900. Nú hefur ríkisstjórnin vaknað upp af værum blundi korteri fyrir kosningar og leggur fram aðgerðaáætlun fyrir Vestfirði. Gott og vel, en á alltaf að koma með slíkar krampakenndar aðgerðaáætlanir og átök korteri fyrir kosningar? Hvernig væri nú að vakna eftir kjördag og fara í brýnar aðgerðir fyrir veikustu svæði landsins, í uppbyggingu innviða, sem hægt er að gera með ýmsum hætti? Ættu menn nú að þekkja það og líta til fjárlaga í þeim efnum.

Hægt er að gera það með því að nota þá ferla sem fyrir eru, sóknaráætlanir sem heimamenn eru búnir að vinna vel og markvisst að. En þessi ríkisstjórn hefur skorið niður sóknaráætlanir. Hún hefur skorið niður samgönguáætlun. Hún hefur þrengt að framhaldsskólanum, sem bitnar á framhaldsskólum eins og á Ísafirði. Hún hefur heft aðgengi fólks eldra en 25 ára að námi sem kemur niður á íbúaþróun á þessum svæðum. Hún hefur ekkert gert í því að bæta fiskveiðistjórnarkerfið. Hún gerir ekkert til að koma upp tengivirki og ákvarða það í Djúpinu til þess að hægt sé að hefja framkvæmdir við Hvalárvirkjun til þess að auka á möguleikum á atvinnu. Hún gefur frá sér sauðfjársamning sem er í raun árás á sauðfjárrækt í jaðarbyggðum eins og á Vestfjörðum. Og þannig mætti áfram telja.

Hvernig væri nú að ríkisstjórnin mundi nú einhvern tímann sýna þann dug að gera þetta öðruvísi en að lofa einhverju korteri fyrir kosningar sem innleggi í kosningabaráttu? Það á að vinna þessi mál (Forseti hringir.) með heimafólki og þverpólitískt. Við þekkjum þá nefnd sem stofnuð var korteri fyrir sveitarstjórnarkosningar, Norðvesturnefndin, (Forseti hringir.) sem stjórnarmeirihlutinn hafði eingöngu aðgengi að og hans fólk í því kjördæmi. Við viljum betri vinnubrögð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Efnisorð er vísa í ræðuna