145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil líkt og hv. þm. Páll Valur Björnsson gera mál Ezes Okafors að umtalsefni hér á Alþingi. Hv. þm. Páll Valur Björnsson fór ágætlega yfir mál Ezes en mig langar að halda áfram að ræða það því að þetta er því miður ekki í fyrsta skipti sem mál af þessu tagi skekur íslenskt samfélag. Það alvarlega er hins vegar að það virðist ekkert geta haft áhrif á Útlendingastofnun og verklag hennar. Hún virðist hreinlega líta á það sem verkefni sitt að halda sem flestum úti og nota til þess öll möguleg ráð.

Hæstv. ráðherra Ólöf Nordal hefur sagt, bæði í sjónvarpsþættinum Hæpinu — sem ég mæli með að allir horfi á því að þetta eru frábærir þættir — sem og þegar hún mælti fyrir nýjum útlendingalögum, að markmiðið sé m.a. að tryggja mannúðlega og skilvirka meðferð stjórnvalda í málefnum útlendinga.

Í sama sjónvarpsþætti, Hæpinu, sagði fulltrúi Útlendingastofnunar að verkefni þeirra væri að framfylgja stefnu stjórnvalda og ráðherra. Það hefur svo sannarlega ekki verið gert hér og mér finnst í því ljósi mjög ámælisvert að hæstv. ráðherra, Ólöf Nordal, hafi ekki látið ná í sig vegna þessa máls. Maður hlýtur að spyrja sig: Er ekkert að marka orð hæstv. ráðherra í þessum málaflokki eða fer Útlendingastofnun ekki eftir fyrirmælum yfirmanns síns? Hvort heldur er er þetta algjörlega (Forseti hringir.) óboðlegt og íslensku samfélagi til háborinnar skammar. Þessu þarf að breyta.


Efnisorð er vísa í ræðuna