145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á því að taka undir með hv. þingmönnum sem hafa talað um mál Ezes. Það er náttúrlega algjörlega til skammar hvernig við komum fram við fólk. Ég hélt að það væri löngu liðin tíð að við kæmum fram við fólk eins og dýr, en svo er víst ekki.

Það sem mig langaði hins vegar til að lýsa eftir er í raun og veru menntastefna stjórnvalda. Hvar er hún eiginlega? Nú vorum við að fá í hendurnar frumvarp um námslán og námsstyrki, því var útbýtt á mánudaginn, og ekki er annað að sjá en að þar sé verið að kollvarpa því hvernig við lítum á menntun í landinu og hverjir hafi rétt á því að fá menntun. Nú þegar er búið að skerða það hverjir hafa aðgang að framhaldsskólunum. Það er ekki lengur þannig að hver sem er geti farið í framhaldsskóla, fengið menntun við sitt hæfi, heldur er núna 25 ára aldurstakmark. Á sama tíma er hér í raun og veru, ef maður les á milli línanna, verið að miða við það að fólk eigi að vera búið með háskólanám um 27 ára aldur. Það er verið að setja fólk allt saman í sama kassa. Það er ekki verið að líta heildstætt á þetta og hversu mikilvægt það er að fólk hafi alltaf tækifæri til þess að mennta sig, fyrir utan að þessi tillaga, þetta frumvarp til laga frá hæstv. menntamálaráðherra, er bara eitthvert krónutölujafnrétti sem er í raun og veru ekkert jafnrétti. Hver er í raun og veru menntastefna stjórnvalda? Er það að útskrifa alla stúdenta úr Háskóla Íslands og öðrum háskólum fyrir 27 ára aldur eða er verið að takmarka tækifæri fjölskyldufólks og þeirra sem eignast börn snemma á lífsleiðinni til þess að stunda nám? Er verið að sjá til þess að fólk geti ekki farið í dýrara nám eða er einfaldlega verið að einkavæða námslánakerfið? Það kemur sérstaklega fram í frumvarpinu að það sé bara fínt að námsmenn taki yfirdrátt. Þá þurfum við að fara að endurhugsa það aðeins til hvers Lánasjóður íslenskra námsmanna er því að mér finnst það ekki vera skýrt.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna