145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég ætla að æra óstöðugan með því að taka enn og aftur upp mál ferðaþjónustunnar og salernismál á ferðamannastöðum. Núna finnum við fyrir því, bæði í höfuðborginni og um allt land, að ferðamennskan er komin á fullt sving, álagið er nú þegar komið, við erum komin í næsta ferðamannasumar. Það er ekkert sem bendir til annars en að þetta verði langstærsta og fjölmennasta ferðamannasumarið hingað til. Við vitum að salernisaðstaða við þjóðvegi, við ferðamannastaði, er í algjörum lamasessi. Ástandið er orðið svo slæmt að sögn vegamálastjóra að Vegagerðin er farin að skoða það að loka áningarstöðum við þjóðveginn að beiðni landeigenda vegna slæmrar umgengni þar sem engin aðstaða er. Við þetta verður ekki búið. Það er ekki hægt að skila þessu vandamáli inn í einhverja óljósa framtíð því að ferðamennirnir eru hérna, þeir verða hérna sína daga, sínar vikur og þurfa að gera sitt á þeim tíma, svo eru þeir farnir og aðrir koma í staðinn.

Ég vil líka nefna það að í úttekt Eflu, sem gerð var fyrir Stjórnstöð ferðamála, var samráð við ýmsa aðila en ekki við Öryrkjabandalag Íslands þannig að í þeirri skýrslu var ekki tekið á aðgengismálum þegar verið var að skoða salernismálin.

Vegagerðin hefur undirbúið neyðaráætlun sem á eftir að fjármagna. Ég get ekki annað en krafist þess að framkvæmdarvaldið standi sig í stykkinu og girði sig í brók í þessum málum. Það er ekki hægt að henda þeim inn í framtíðina. Þetta er að gerast núna.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna