145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

staða og rekstrarvandi framhaldsskólanna.

[15:36]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil ræða við hæstv. menntamálaráðherra um rekstrarvanda framhaldsskólanna í landinu sem er svo alvarlegur að sumir þeirra hafa ekki átt fyrir helstu rekstrargjöldum. Ekki batnaði ástandið þegar fjármálaráðuneytið tók upp það verklag nú um áramótin að skrúfa fyrir rekstrargreiðslur til þeirra skóla sem standa í svokallaðri skuld við ríkissjóð. Í síðustu viku var gripið til þess neyðarúrræðis að setja einskiptisgreiðslu til skólanna, 100 millj. kr., upp í 280 millj. kr. gat. Málið er þess vegna engan veginn leyst því að 100 millj. kr. er ekki nema ríflega þriðjungur af því sem til þarf til að leysa þann bráðavanda. Eftir stendur hinn óleysti langtímavandi, vandi sem liggur í forsendubresti við áætlanir og úthlutun fjármuna til framhaldsskólastigsins og hann liggur í reiknilíkani sem aldrei hefur virkað sem skyldi þar sem launastikan er færð til eftir þörfum fjárveitingavaldsins en ekki raunverulegri rekstrarþörf skólanna og þar sem ekki er tekið tillit til raunfjölgunar nemenda. Svo ég nefni bara eitt dæmi. Fjölbrautaskóli Snæfellinga tók við mikilli fjölgun nýnema síðastliðið haust en fékk ekki nema rétt rúmlega helming þeirra metinn samkvæmt reiknilíkani.

Formaður Skólameistarafélags Íslands hefur sagt í fjölmiðlum að ekki sé hægt að skera meira niður hjá framhaldsskólunum til að greiða upp skuldir, þeir séu einfaldlega komnir að þolmörkum. Við fáum fregnir af því að mánuðum saman hafi stórir skólar eins og t.d. Verkmenntaskólinn á Akureyri og Kvennaskólinn í Reykjavík ekki getað greitt reikninga á réttum tíma vegna skorts á rekstrarfé. Almennt hafa framhaldsskólarnir jafnvel átt bágt með að standa undir kjarasamningsbundnum launagreiðslum, því að við vitum að laun eru langstærsti rekstrarliður framhaldsskólanna. Það segir sitt um niðurskurðinn á síðustu árum að fyrir u.þ.b. áratug voru launin nálægt því að vera 80% rekstrargjalda en eru núna komin yfir 90%.

Það er auðvitað ýmislegt í reiknilíkaninu og reikningsforsendum þess sem hefur áhrif. Það þarf nefnilega að meta stöðu hvers skóla. Sumir skólar eru rótgrónir og þar er launakostnaðurinn meiri vegna þess að meðalaldur kennara er hár, þá er kominn inn kennsluafsláttur og lífaldurshækkanir sem þarf að meta. Hátt menntunarstig kennara, sem er auðvitað æskilegt, hækkar hins vegar launakostnað skóla og virðist koma niður á þeim. Meðan þessi þvera reikningsaðferð er notuð við að úthluta rekstrarfé til skólanna, njóta þeir ekki sérstöðu að þessu leyti.

Menntamálaráðherra hefur í orði kveðnu viðurkennt vandann. Til dæmis skrifaði hann undir bókun í tengslum við kjarasamninga um að reiknilíkan framhaldsskólanna yrði fært í rétt horf með áherslu á að grunnbreytur endurspegluðu launakostnað sem réttast á hverjum tíma, eins og segir í bókuninni, og að endurskoðun reiknilíkansins yrði lokið á fyrri hluta árs 2015. Það er rúmt ár síðan það var. Við þetta hefur enn ekki verið staðið.

Nú hafa forustumenn framhaldsskólakennara kallað eftir skýringum á því hverju það sæti að launastika framhaldsskólanna hefur ekki verið færð í rétt horf og hvers vegna rekstur skólanna er enn þá undir þolmörkum þrátt fyrir yfirlýsingar um að meginbreytingar á fyrirkomulagi náms til stúdentsprófs eigi að bæta rekstrarniðurstöðu skólanna.

Því vil ég nú spyrja hæstv. ráðherra um efndir á þessu fyrirheiti um að endurskoða reikningsaðferðirnar og forsendurnar sem marka skólunum rekstrarfé. Hvað tefur hinar umsömdu leiðréttingar á reiknilíkaninu sem fjármögnun skólanna byggist á? Verður staðið við kjarasamninga kennara? Það er knýjandi spurning á meðan ástandið er eins og raun ber vitni.