145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

staða og rekstrarvandi framhaldsskólanna.

[15:41]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að hefja máls á því efni sem hér er um rætt. Mikilvægi þess er augljóst, þ.e. fjármögnun framhaldsskólastigsins og hvernig er að því staðið. Þeir sem hafa fylgst vel með umræðunni um framhaldsskólana á undanförnum árum þekkja að sá vandi sem við er að etja er ekki nýtilkominn. Umræðan hefur staðið lengi, bæði um þær aðferðir sem við notum til að deila út fjármagni og það fjármagn sem við höfum til skiptanna til skólanna.

Ég vil byrja á því að vekja athygli á því að á árinu 2012, held ég að það hafi verið, stóðum við í þeim sporum að framlögin sem við vorum með á hvern nemanda í framhaldsskólakerfinu voru u.þ.b. 900 þús. kr. á virði ársins 2016. Það gerðist þannig að veruleg hagræðingarkrafa var sett á framhaldsskólann sem hafði þó fyrir hrun verið að koma úr mjög erfiðu tímabili og margir skólar loksins rétt við það að koma sér í jafnvægi. Það verður verulegur niðurskurður í framhaldsskólakerfinu niður í þessa tölu, 900 þús. kr. á hvern nemanda, á meðan til samanburðar má nefna að á grunnskólastiginu er það rúmlega ein og hálf milljón sem fylgir hverjum nemanda. Reiknilíkanið býr þess vegna ekki til fjármuni. Það sem gert var á þessum árum til að mæta þessari kröfu var að ákveða að fara þá leið að draga niður launastikuna, alveg hárrétt. Það þýddi ekki að laun væru ekki greidd. En það var leiðin sem var farin til að dreifa fjármununum. Það hefði verið hægt að velja aðra breytu. Það hefði sama niðurstaða í sjálfu sér eða svipuð komið út. Þetta þótti á sínum tíma þegar ákvörðunin var tekin vera skynsamlegast að gera.

En hið góða er að á undanförnum árum höfum við verið að færa okkur í rétta átt hvað varðar launastikuna. 2014 var launastikan margumtalaða skökk upp á 22%. Síðan hefur dregið úr þeirri skekkju. Það má gera ráð fyrir að á þessu ári verði skekkjan 7,6% og að á árinu 2017 eða 2018 verði skekkjan farin út. Með öðrum orðum hafi tekist að bæta við fjármagni þannig að skekkjan sem við ræðum svo mikið um hverfi.

Hvað erum við þá að tala um? Hvers vegna er það að gerast? Jú, vegna þess að við höfum verið að auka fjármagnið inn í framhaldsskólann. Það er ekki þannig að það hafi verið niðurskurður eins og hér var látið að liggja. Þvert á móti. Núna stendur það svo að framlagið á hvern nemanda á verðlagi ársins er 1,2 milljónir. Það er búið að bæta í. En þegar horft er á þær forsendur sem eru núna í ríkisfjármálaáætlun og síðan þá staðreynd að við erum búin að fara úr fjögurra ára kerfi í þriggja ára kerfi og þeir fjármunir sem sparast halda sér inni í kerfinu, þá stefnir í að við lok ríkisfjármálaáætlunar verði staðan orðin gerbreytt í framhaldsskólunum. Ég ætla að lýsa því hvernig það mun birtast.

Ef við skoðum okkur í samanburði við Norðurlöndin árið 2012 var framlag á hvern nemanda á Íslandi 7.600 dollarar, kaupmáttarleiðrétt, en í Danmörku voru það 9.900 og í Finnlandi 8.500 og í Svíþjóð 10.900. Ég ætla að hlífa þingheimi við norsku tölunni. En þegar kemur til ársins 2020, á þeim forsendum sem nú liggja fyrir í ríkisfjármálaáætluninni og á grundvelli nemendafjöldaþróunar sem liggur fyrir líka, verður íslenska talan ekki lengur 7.600 heldur 10.600. Þá verðum við komin á sama stað og eilítið yfir grannþjóðir okkar, að því gefnu að þær séu ekki að bæta sérstaklega við umfram það sem nú er.

Með öðrum orðum: Við verðum komin á þann stað að samanburðurinn á milli Íslands og Norðurlandanna hvað varðar fjármagn á hvern nemanda í framhaldsskólastiginu verður orðinn okkur ágætlega hagstæður. Út á það hefur öll þessi aðgerð gengið og vinna á undanförnum árum. Það er rétt að við erum í greiðsluvanda. Það eru vandamál í kerfinu. En þegar menn horfa á heildarmyndina, hvaðan við komum og hvert við stefnum, blasir þessi mynd við. Þetta geta menn séð með því að skoða tölurnar í ríkisfjármálaáætlun og bera síðan saman við nemendafjöldaáætlanir sem liggja fyrir. Þá kemur þessi mynd.

Það skiptir gríðarlega miklu máli, virðulegur forseti, að okkur takist að vinna vel úr þeim vanda sem við er að fást (Forseti hringir.) í hverjum og einum skóla. En ég fullyrði að þetta er það sem fram undan er. Þetta er það sem við höfum ákveðið í ríkisfjármálaáætluninni og (Forseti hringir.) það eru gleðitíðindi að við skulum vera að komast á sama stað og Norðurlöndin eru núna hvað varðar fjárframlag á hvern nemanda árið 2020.