145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

staða og rekstrarvandi framhaldsskólanna.

[16:00]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég vil þakka fyrir þessa þörfu umræðu. Framhaldsskólinn er gríðarlega mikilvæg stofnun í íslensku samfélagi og í öllum samfélögum, ekki bara menntunarinnar vegna heldur ekki síður vegna þess að þar er um að ræða vettvang fyrir leik og sköpun, félagslíf og þroska og gríðarlega mikilvægan og dýrmætan tíma í lífi hverrar manneskju.

Slíkt skólastig þarf ekki síst að búa yfir fjölbreytni, opnun og sveigjanleika. Skólinn og skólastigið þarf að vera tilbúið til þess að horfast í augu við það að fjölbreytt fólk þarf fjölbreytt kerfi, fjölbreytt kerfi sem er fjármagnað, sem er virkt, sem er örvandi fyrir fólk af öllum gerðum um allt land.

Það sem hefur gerst í þessum málaflokki á kjörtímabilinu hefur því miður verið í hina áttina. Viðleitni hæstv. menntamálaráðherra hefur að jafnaði snúist um miðstýringu, um aukna einsleitni. Stytting framhaldsskólans var miðstýrð, algerlega án þess að borið væri við að hlusta eftir ólíkum röddum skóla eins og Menntaskólans í Reykjavík sem var hunsaður algerlega í þessu ferli. Hæstv. ráðherra lokaði framhaldsskólanum fyrir 25 ára og eldri og olli þar með algerlega nýjum vanda í íslensku samfélagi þar sem skólanum var lokað fyrir þessum aldurshópi. Það er óþolandi staða fyrir þetta skólastig að vera í óvissu og þurfa að verjast atlögum síns eigin ráðherra sem ætti að hafa til þess metnað og skilning að setja hagsmuni ungs fólks í algeran forgang. Vandann þarf að leysa strax og vandann þarf að leysa varanlega.