145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

búvörusamningur með tilliti til umhverfis- og náttúruverndar.

[16:23]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir að taka þetta mál til sérstakrar umræðu í þinginu. Ég sit í atvinnuveganefnd þar sem við höfum verið að vinna með búfjársamninginn og þau lög sem tengjast því. Ég held að sé best hvað þetta varðar að lesa lokaorð frá Ólafi Arnalds, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, á vefsíðu hans moldin.net, en þar stendur, með leyfi forseta:

„Samningur um starfsskilyrði sauðfjárræktar er afar umdeildur, m.a. á meðal bænda, sem margir hverjir hafa bent á þau rök sem hér hafa verið talin. Einn helsti sérfræðingur landsins á sviði sauðfjárræktar til margra áratuga skrifaði grein um skort á framtíðarsýn við samningsgerðina og þar stendur m.a.: „Stuðningur er fluttur frá svæðum með mest landgæði yfir til þeirra sem slakar standa.“ Og enn fremur: „Í 5. gr. samningsins birtist einn ótrúlegur fortíðardraugur á sviði. Þar er fjallað um gripagreiðslur …“ (Jón V. Jónmundsson, Morgunblaðið 6. apríl 2016).“

Ólafur heldur áfram og segir:

„Samningurinn, verði hann samþykktur, er stórslys frá umhverfisfræðilegu sjónarmiði, hugsanlega einn versti gjörningur stjórnvalda í umhverfismálum um áratugaskeið. Enn fremur leiðir hann til gríðarlegs fjárausturs (milljarðatugur í það minnsta) til að greiða kjöt ofan í neytendur á erlendri grundu. Um það mun ekki ríkja nein sátt, sem leiðir til neikvæðrar umræðu sem skaðar framleiðslu og hag þeirra bænda sem búa við góð beitilönd.“

Þetta eru stór og mikil orð frá sérfræðingi okkar. Í svipaðan streng tekur Sveinn Runólfsson, fyrrverandi landgræðslustjóri, sem skrifar umsögn um málið prívat og persónulega. Þar fjallar hann m.a. um aðkomu Matvælastofnunar að landbúnaðaráætlunum og talar um að tíu slíkar bíði og eigi eftir að vinna með. Þar kemur ýmislegt fram.

Komið hafa fram áhyggjur varðandi þetta mál í vinnu nefndarinnar, bæði hjá sauðfjárbændum og ýmsum öðrum sem (Forseti hringir.) komið hafa til nefndarinnar og rætt um kafla búvörusamnings varðandi loftslagsmál (Forseti hringir.) Þar hefur t.d. komið fram (Forseti hringir.) að ekkert tillit sé tekið til þeirra skuldbindinga sem Ísland skrifaði undir á loftslagsráðstefnunni í París.