145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

búvörusamningur með tilliti til umhverfis- og náttúruverndar.

[16:25]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli. Um leið þakka ég hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Á mínum stutta tíma vil ég fyrst og fremst beina sjónum að því að þegar um er að ræða jafn stóra og mikilvæga skuldbindingu til jafn langs tíma og raun ber vitni er svo mikilvægt að á bak við hana liggi greining á þessum þáttum, greining t.d. á því hvernig það rímar við loftslagsmarkmiðin.

Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir hefur lagt inn fyrirspurn um umhverfisáhrif búvörusamninga. Þar kemur fram að ekki hafi verið beitt t.d. aðferðum vistsporsmælinga við mat á umhverfisáhrifum og umhverfismarkmiðum búvörusamninga eða öðrum viðurkenndum aðferðum á því sviði enda hafi ekki farið fram mat á umhverfisáhrifum. Því má spyrja sig hvort ekki væri eðlilegt vinnulag þegar um er að ræða jafn stórt og mikilvægt mál og þetta, sem vissulega hefur áhrif inn í loftslagsmarkmiðin þegar við skoðum losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum og hvernig hún skiptist á milli ólíkra geira. Það á ekki bara við um landbúnaðinn, það á við um alla þá geira sem hér hafa áhrif á loftslagsmarkmiðin, að þá sé það til að mynda forsætisráðuneytisins að sjá um slíkar framkvæmdir, þó að þær séu ekki framkvæmdir í merkingunni „hefðbundin verksmiðja“, fari í slíkt umhverfismat þar sem við mælum vistsporið, þar sem við metum loftslagsáhrifin. Það er hluti af því að gera stjórnsýsluna samhentari þannig að við náum markmiðunum.

Það vakti líka athygli mína sem hæstv. ráðherra nefndi áðan, þ.e. um áhrif á konur sérstaklega. Auðvitað ættu jafnréttismálin að sama skapi að vera yfirskipuð með þessum hætti.

Ég vil nefna að Landvernd hefur skilað inn talsvert ítarlegri ályktun þar sem sérstaklega er rætt um sjálfbæra nýtingu gróðurs og jarðvegs, afrétti, gæðastýringu, lausagöngu og annað slíkt, og eins þá nauðsyn að umhverfisyfirvöld komi virkar að þessum málum. Ég held að það sé mjög mikilvægt til framtíðar litið að við samþættum þessa stefnumótun (Forseti hringir.) betur. Forsætisráðuneytið leikur þar lykilhlutverk (Forseti hringir.) því að við munum ekki ná þeim markmiðum sem við setjum okkur á sviði umhverfismála ef við leggjum ekki af stað með réttu gögnin og réttu greiningarnar.