145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

búvörusamningur með tilliti til umhverfis- og náttúruverndar.

[16:34]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka umræðurnar. Í dag vinna hinir ýmsu aðilar að því að halda landinu vel grónu. Í gangi eru verkefni um landgræðslu, skógrækt, uppgræðslu og viðhald gróðurþekju og mörg þeirra knúin áfram af vinnu bænda, t.d. verkefnið Bændur græða landið, skógarbændur víðs vegar um landið ásamt gæðastýringu við búfjárrækt og verkefni búnaðarfélaga. Hæstv. ráðherra minntist svo á þátt bænda í loftslagsáætluninni áðan.

Það er því samhljómur í verkefnum bænda nú þegar og þeirri viðleitni sem fram kemur í nýjum búvörusamningum sem liggja fyrir Alþingi þar sem lögð er áhersla á sjálfbæra landnýtingu, stuðning við skógarbændur og rannsóknir á beitarlöndum. Inn kemur jarðræktarstuðningur og stuðningur við ræktað land um leið og gæðastýring er upphafin. Þá kemur fram í skilgreiningu á gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu að það sé dilkakjöt sem framleitt hefur verið eftir kröfum um skilgreindan framleiðsluferil, hollustu og umhverfisvernd.

Í þeim samningum sem eru til umræðu er lagt til að reynt verði að ná betur utan um gróðurauðlindir landsins með frekari rannsóknum ásamt því að ríkissjóður veiti framlög til verkefna sem snúa m.a. að jarðbótum. Því má ekki gleyma að það kemur fram í aðalmarkmiðum samningsins um starfsskilyrði sauðfjárræktar, þar sem málshefjandi tekur hana sérstaklega fyrir, að hún sé stunduð í samræmi við umhverfisvernd, landkosti og sjálfbæra landnýtingu. Vel má vera að skerpa þurfi enn frekar á umhverfisvernd í samningunum, búa til meiri hvata til beitarstýringar og horfa meira á beitarþunga, álag og þol, en það verkefni er alls ekki ómögulegt eða óframkvæmanlegt. Núna stendur yfir vinna við endurskoðun á lögum um landgræðslu í umhverfisráðuneytinu, enda er núverandi löggjöf frá 1965. Við endurskoðun er lögð áhersla á að hvetja til meiri græðslu lands, bæta land og endurheimta vistkerfi. Landgræðsla ríkisins hefur til að mynda auglýst eftir umsóknum um styrki til endurheimtar votlendis. Möguleikar á að flétta saman markmið þeirrar löggjafar og nýrra búvörusamninga eru því til staðar.

Ég tel tilvalið að líta til nýlegrar niðurstöðu starfshóps um landnotkun í dreifbýli og sjálfbæra landnýtingu (Forseti hringir.) og á þessu ári leggur ríkið til nærri 700.000.000 kr. fjárveitingu til Landgræðslu ríkisins enda eru verkefni hennar margvísleg. Tækifærin eru því klárlega til staðar til að láta umhverfissjónarmið vega þyngra í samningunum núna.