145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

búvörusamningur með tilliti til umhverfis- og náttúruverndar.

[16:36]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Ég held að hún sé mjög tímabær. Við erum að tala um samninga sem munu kosta ríkið um 13–16 milljarða á ári til næstu tíu ára. Þetta eru miklar fjárhæðir, miklir peningar. Það er eðlilegt að við spyrjum okkur hvað við erum að fá út úr þessum samningum, bæði fyrir þjóðfélagið og líka hvernig bændurnir hagnast. En það er samt ekki síður mikilvægt að ræða þær spurningar sem hv. þm. Róbert Marshall leggur fram. Hvaða kröfur gerum við í þessum samningum til þeirra sem nýta landið og umbreyta því í starfsemi sinni eins og bændur sannarlega gera Hvaða áhrif hefur það á umhverfið? Hvaða áhrif hefur það í loftslagsmálum?

Ég held að við eigum að gera meira en að fagna eingöngu viðleitni eins og það var kallað af hv. þm. Birgi Ármannssyni og hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, að í samningunum sé viðleitni í þessa veru. Við eigum að ganga lengra þegar svona miklir fjármunir eru í húfi og setja okkur skýra mælikvarða þegar kemur að öllum þeim þáttum sem hafa verið nefndir, þ.e. taka ákvörðun um það fyrir fram hvaða markmiðum við ætlum að ná í sameiningu, hvaða kröfur við ætlum að gera nákvæmlega til bænda, hvaða niðurstöðu það á síðan að leiða til. Ef menn standa sig ekki sé jafnvel hægt að taka samningana upp á þeim forsendum.

Við setjum allt of oft mikla fjármuni í hin ýmsu verkefni hér á landi, skattpeninga, og setjum ekki nægjanlegar kröfur á okkur sjálf um mælikvarða á árangur þeim tengdum. Við megum ganga lengra í því. Ég er ekkert að saka þessa ríkisstjórn um að vera verri en einhver önnur í því. Ég held að almennt megum við gera meira af því að setja okkur skýra mælikvarða og reyna að ná þeim markmiðum, t.d. í gegnum svona samninga.