145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

almennar félagsíbúðir.

435. mál
[17:24]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er býsna stórt mál sem við erum komin á lokasprettinn með að afgreiða. Ég vil segja strax að þetta er þýðingarmikið mál og mjög mikilvægt að koma á þeim breytingum sem frumvarpið gerir ráð fyrir af ástæðum sem okkur eru öllum ljósar. Það hefur verið og er ríkjandi eins og sakir standa, ófremdarástand á húsnæðismarkaði sérstaklega gagnvart ungu fólki sem er fast í fátæktargildru og hefur eiginlega fárra kosta völ. Það hefur hvorki efni á að kaupa né leigja og var löngu tímabært að stigin yrðu markverð skref til þess að breyta skilyrðum í þá veru að auka framboð á leiguhúsnæði á viðunandi og sanngjörnu verði. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar, hefur farið vel yfir þau meginsjónarmið sem nefndin hafði til hliðsjónar við vinnu sína. Ég verð að taka undir það með þeim sem hér hafa talað að bæði á hv. nefnd og ekki síður ritari nefndarinnar þakkir skilið fyrir mikla og óeigingjarna vinnu, og þá ekki síður forusta nefndarinnar sem lagt hefur á sig ómælda vinnu við að leiða þetta mál til lykta. Eins og allfyrirferðarmikið skjal með breytingartillögum gefur til kynna hefur forusta nefndarinnar, framsögumaður og aðrir vandað sig mjög við þetta verk. En það er nú ekki mitt að standa hér og þakka nefndinni. Það stendur kannski ráðherranum nær og væntanlega gerir hún það.

Ég hef ekki miklu við að bæta þau atriði sem fram komu í máli hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, formanns nefndarinnar og framsögumanns nefndarálits, og geri engan ágreining við þau atriði sem hún rakti. Ég vil samt koma inn á eitt atriði sem kannski má ætla að sé aukaatriði en er í mínum huga að hluta til efnislegt. Það lýtur að fyrirvaranum sem ég geri við nefndarálitið í heild sinni sem lýtur að breytingu á heiti frumvarpsins. Upphaflega hét þetta frumvarp til laga um almennar íbúðir. Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að í raun og veru væri ekki um að ræða almennar íbúðir heldur tiltekið leiguíbúðaform sem byggir á almennum leigufélögum. Þess vegna komst nefndin að þeirri niðurstöðu fyrir 2. umr. að breyta heitinu í almennar félagsíbúðir. Sá misskilningur hefur af einhverjum ástæðum komið upp að það heiti vísi til þess hóps sem frumvarpinu er ætlað að taka til, efnaminna fólks eða því um líkt. Þar af leiðandi hafi komið upp tillaga um að kalla þetta félagsíbúðir af því að þetta væri einhvers konar félagslegt úrræði. Það er mikill misskilningur. Félagslegar leiguíbúðir eru annað en félagsíbúðir. Félagsíbúðir vísa einfaldlega til þess að íbúðaformið byggir á leigufélagaformi jafnvel þó að áskilið sé í lögum að það leigufélagaform eigi að vera sjálfseignarstofnanir.

Hins vegar gerðist það fyrir þessa umræðu að Alþýðusamband Íslands gerði athugasemd við að nefndin skyldi hafa ætlað að taka upp heitið „félagsíbúðir“ og vísaði til þess í málflutningi fyrir nefndinni að hugtakið „félags-“ kunni að hafa einhverja neikvæða merkingu sem ekki sé vert að halda á lofti og geti haft neikvæð áhrif eða einhvers konar dóm um það fólk sem fer inn í þetta húsnæðiskerfi.

Það er nú reyndar umhugsunarefni hvers vegna Alþýðusamband Íslands veigrar sér við að nota hugtakið „félags“, því ef einhver ætti að vera brimbrjótur og framvörður félagslegra gilda í þessu samfélagi þá er það auðvitað Alþýðusamband Íslands. Að flýja frá hugtökum af því að menn telja þau ekki hafa nógu góða áru er ekki til þess fallið að bæta úr fordómum eða breyta neikvæðri ímynd. Þetta vissu blökkumenn í Bandaríkjunum þegar þeir tóku sér í munn slagorðið „Black is beautiful“. Það er nú til gamall málsháttur sem er þá þessa leið: „Gimbur verður ekki naut þótt hún sé vistuð í fjósi.“ Það á líka við í þessu máli. Það þýðir ekki að breyta heitum og halda að það breyti hugarfari.

Við þekkjum líka ýmis dæmi úr sögunni um notkun á hugtökum. Upphaflega var talað um fávita. Síðan var talað um þroskaskert fólk og þroskaheft fólk. Svo voru alltaf fundin fleiri og fleiri hugtök. En hugtök fá á sig neikvæða áru ef hugarfarið er ekki jákvætt. Eins með innflytjendur. Upphaflega var talað um innflytjendur, svo mátti það ekki og var farið að tala um nýbúa. Nú er aftur farið að tala um innflytjendur af því að nýbúar er orðið neikvætt hugtak.

Félagsíbúðir eru auk þess ekki tilvísun í þann hóp sem á að nýta sér þetta húsnæðiskerfi, heldur er það bara tilvísun í að lögin taka til leiguíbúðaforms sem eru almenn íbúðafélög. Félög.

Ég tek þetta mál upp hérna og vek athygli á því vegna þess að mér finnst að með því að fallast ekki á þau sjónarmið að leyfa þessu að heita það sem það raunverulega er sé velferðarnefnd að taka sér vald til að segja fyrir um málskilning og orðnotkun. Það vald hefur velferðarnefnd ekki. Ef þetta á að heita almennar íbúðir, hvaða hugtak þóknast þá velferðarnefnd að nota um almennar íbúðir á almennum markaði? Nefndin er komin út á hála braut þegar hún tekur sér þetta vald til að þjóna pólitískum dyntum, hvaðan sem þeir koma. Við það geri ég alvarlegar athugasemdir.

Ég læt það að sjálfsögðu ekki koma í veg fyrir að ég taki jákvæða afstöðu til málsins í heild sinni, en það breytir því ekki að mér er eiginlega misboðið þegar ég sé hártoganirnar og furðulegheitin sem farið geta af stað þegar á að fara að þóknast hagsmunaaðilum, óorðuðum sjónarmiðum og jafnvel fordómum í samfélaginu, elta það uppi með því að skipta um heiti á hlutum. Mér þætti fróðlegt að heyra það í máli manna hér á eftir ef einhver hefur áhuga á að ræða þetta, hvaða orð við eigum þá í framhaldinu að nota um almennar íbúðir sem eftir sem áður er hið ríkjandi hugtak yfir hið ríkjandi húsnæðisform á Íslandi í dag.