145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

almennar félagsíbúðir.

435. mál
[17:33]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. formanni velferðarnefndar fyrir afar góða og ítarlega yfirferð á þeim breytingartillögum sem nefndin hefur lagt fram. Ég vil einnig taka undir með þeim sem áður hafa talað. Við erum samstiga og sammála um að það sem við gerum með frumvörpum hæstv. húsnæðismálaráðherra er að breyta leigumarkaðnum, vegna þess að hann er ómögulegur eins og hann er núna. Það er mjög dýrt að leigja. Leigjendur búa við lítið öryggi ef eitthvert öryggi. Þrjú af fjórum frumvörpum, frumvarp um húsaleigulög sem var samþykkt áðan, það frumvarp sem nú er til umræðu um almennar íbúðir og svo frumvarp um húsnæðisbætur, spila saman en markmið þeirra allra er að tryggja öryggi leigjenda á markaði, fjölga leiguíbúðum, sem er mjög mikilvægt þar sem gríðarlegur skortur er á húsnæði á flestum stöðum á landinu, og einnig að takmarka hlutfall þess sem fólk þarf að reiða fram til leigu í hverjum mánuði. Það kom fram í könnun sem velferðarráðuneytið eða hæstv. húsnæðismálaráðherra lét gera, að mig minnir, að leigjendur greiddu vel yfir helming tekna sinna í húsaleigu, sem segir manni að þá er oft lítið eftir fyrir aðrar nauðþurftir. Því verðum við að breyta og því erum við að breyta, m.a. með upptöldum frumvörpum, vegna þess að við viljum að neytendur, íbúar, Íslendingar, hafi raunverulegt val um það hvernig þeir búa. Sumir vilja kaupa húsnæði, aðrir vilja leigja húsnæði. Við erum með ólík fjölskylduform, við erum með ólíka einstaklinga og við þurfum að mæta fólki á þeim stað þar sem það er hverju sinni. Leiga verður að vera raunhæft val, en hún er það ekki eins og staðan er núna.

Ég bind miklar vonir við að þetta frumvarp verði samþykkt og á ekki von á öðru þar sem algjör samstaða hefur verið í nefndinni. Eins og aðrir hafa sagt í nefndinni höfum við tekið fjölmarga slagi. Við höfum þurft að ræða okkur niður á lausnir og gera fullt af málamiðlunum, en við höfum verið sem einn maður í því að leita lausna. Inn á milli höfum við andvarpað og verið við það að gefast upp, en við vissum allan tímann að markmiðin voru göfug og góð og vildum gera allt til þess að ná þeim. Það þýddi ekkert að dæsa, þá stendur maður upp og gerir hlé og heldur svo áfram, það er bara þannig.

Við erum komin á þann stað í dag að vera búin að afgreiða tvö af fjórum frumvörpum hæstv. húsnæðismálaráðherra, þ.e. frumvarp um húsnæðissamvinnufélög sem er góð réttarbót varðandi það búsetufyrirkomulag sem margir kjósa sér, við afgreiddum áðan frumvarp um húsaleigulög sem fela í sér miklar umbætur frá núverandi húsaleigulögum, og nú erum við með til umræðu frumvarp um almennar íbúðir. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að við afgreiðum það frá Alþingi í dag eða á morgun, vonandi með fullu húsi. Þá er eftir fjórða frumvarpið sem er frumvarp um húsnæðisbætur, sem er langt komið í hv. velferðarnefnd. Ég bind miklar vonir við að nefndin klári það. Það frumvarp er í rauninni síamstvíburi þess frumvarps sem við ræðum nú, þ.e. frumvarps um almennar íbúðir, vegna þess að svo að markmið frumvarpanna náist þurfa bæði frumvörpin að fara í gegn, þ.e. markmiðin að fjölga leiguhúsnæði, bæta húsnæðisöryggi fólks og að kostnaður við leigu verði ekki hærri en 20–25% af ráðstöfunartekjum.

Mig langar líka að nefna að nefndin hefur lagt sig fram, með góðri aðstoð frá velferðarráðuneytinu. Ég vil þakka starfsmönnum þess eins og aðrir hafa þegar gert, en ég vil líka segja að þeir hagsmunaaðilar sem unnu með okkur að málinu eiga miklar þakkir skildar fyrir framlag sitt. Menn komu oft á fund nefndarinnar með mjög stuttum fyrirvara, sumir komu oftar en einu sinni og oftar en tvisvar til að hjálpa okkur að klára málið og laga það til. Menn lögðu mikla vinnu í umsagnir um málið og oft og tíðum var um mjög ólíka hagsmuni að ræða. Menn voru, eins og við stjórnmálamennirnir, tilbúnir til að gefa eftir fyrir eitthvað stærra, eitthvað stórt, sem er nýtt húsnæðiskerfi, aukið öryggi á leigumarkaði. Mér finnst það merkilegt. Sumir fundirnir voru erfiðir og fólk blés svolítið og allt svoleiðis, en svo komu menn saman, sameinaðir, búnir að tala sig niður á niðurstöðu, lögðu niðurstöðuna fyrir nefndina og nefndin gat haldið áfram. Það hefur verið frábært og skemmtilegt, ég verð að segja það, að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í þessari vinnu. Hún hefur verið mjög lærdómsrík og örugglega merkileg og það verður merkilegra þegar lengra líður í sögulegu samhengi að hafa fengið að vera lítið peð í mótun á nýju húsnæðiskerfi. Mér finnst það frábært. Ég vil enn og aftur þakka ágætu samstarfsfólki mínu í velferðarnefnd fyrir samvinnuna, þakka ykkur innilega fyrir. Ég vil óska hæstv. húsnæðismálaráðherra til hamingju, það er allt að gerast. Þetta er skref í rétta átt.

Næst á dagskrá hjá okkur á Alþingi, því að húsnæðisfrumvörpin eru ekki allt og sumt þótt þau séu mikilvægur hlekkur í þeim umbótum sem við erum að vinna að á húsnæðismarkaði, er að gera frekari breytingar. Við þurfum að endurskoða fjármálakerfið, greiðslumatið, hvernig því er háttað, og verðtrygginguna á neytendalánum. Það liggur fyrir og eins og með margt annað er þetta langhlaup. Það sem skiptir máli ef maður ætlar að sigra er að hætta aldrei, gefast ekki upp, vegna þess að við komumst á leiðarenda að lokum. Þá verða reyndar komin ný verkefni að fást við en það er allt í lagi, við verðum að hafa eitthvað að gera.

Hæstv. forseti. Mig langar að lokum að þakka fyrir samvinnuna frá öllum aðilum sem komu að þessari miklu vinnu.