145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[18:18]
Horfa

Frsm. fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju. Skemmst er frá því að segja að frá því að Landeyjahöfn var tekin í notkun árið 2008 hefur staðið til að ný ferja kæmi af ástæðum sem ég greini frá á eftir. Reyndar var hún boðin út á því herrans ári en vegna fjármálahrunsins var ekki tekið lægsta tilboði sem barst í smíði ferjunnar. Ástæðan fyrir því að það átti að koma með nýja ferju er einfaldlega að sú ferja sem nú er hentar engan veginn til að sigla inn í þessa höfn. Þrátt fyrir það hefur farþegum til Eyja með Herjólfi fjölgað úr 130.000 í 300.000 út af þessum bættu samgöngum. Það er kannski bylting í samgöngum sem menn hafa ekki áttað sig á sem þekkja ekki til, þetta þýðir stórbætt lífskjör fyrir þá sem þar búa. Þetta er sömuleiðis mikil breyting fyrir atvinnulífið og ekki síst fyrir ferðaþjónustuna. Ferðamönnum til Íslands fjölgar fyrirsjáanlega upp í 2.000.000 á næstu missirum og þrátt fyrir að það hafi orðið grundvallarbreyting á þeim málum í Vestmannaeyjum, eins og við þekkjum sem komum reglulega til eyjanna og höfum gert á undanförnum áratugum, fara Vestmannaeyingar samt sem áður mjög á mis við ferðamanninn, ef þannig má að orði komast. Það er gott að hafa það í huga. Mér þótti áhugavert að heyra að t.d. í Reynisfjöru koma jafn margir ferðamenn á viku og til Vestmannaeyja á heilum mánuði. Upphæðin sem er varið í fjárfestingu í ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum er ekki hundruð milljóna heldur milljarðar. Þar er glæsilegt safn, eyjarnar hafa breyst frá því að þar voru bara nokkrir veitingastaðir í það að hafa góðan fjölda með miklum gæðum. Þetta er vænlegur áfangastaður fyrir ferðamenn, hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir. Við skulum hafa í huga að ferðaþjónustan er búin að breyta þjóðfélaginu í grundvallaratriðum og efnahagslífinu og við horfum núna upp á að ef áætlanir ná fram að ganga verða útflutningstekjur af ferðaþjónustunni meiri en sem nemur samanlögðum útflutningstekjum af álinu og sjávarútveginum. Og það er á næsta ári.

Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að ferjusmíðin verði boðin út á Evrópska efnahagssvæðinu og muni síðan taka 18 mánuði. Ástæðan fyrir því að það liggur á að gera þetta núna er ekki bara að það skiptir máli að samgöngur við Vestmannaeyjar séu góðar eins og við aðra staði á landinu. Þarna er ekki um það að ræða að fara aðrar leiðir en að hafa skip. Það er auðvitað hægt að ferðast til eyjanna með öðrum hætti, en ef við ætlum að halda samgöngum eins og við viljum hafa við aðra staði á landinu komumst við aldrei hjá því að byggja skip. Það er ekki hægt að gera það í litlum skömmtum, annaðhvort byggjum við skip eða ekki.

Mikil gagnrýni hefur komið fram á þessi mál. Það er gott. Við eigum að gleðjast yfir því þegar menn eru með gagnrýna hugsun og gagnrýna þessa hluti sem og aðra. Við í hv. fjárlaganefnd reyndum að taka mið af því, þ.e. við fengum alla þá gesti sem við töldum að gætu haft innlegg í þessa umræðu og þekktu til til að skilgreina ávinning af framkvæmdinni og kanna hvort fullnægjandi undirbúningur lægi fyrir. Frá því er skemmst að segja, og það er rakið í nefndarálitinu, að það er búið að undirbúa þetta mál mjög vel. Ég ætla með leyfi virðulegs forseta að lesa upp helstu niðurstöður hvað varðar ávinning af framkvæmdinni og niðurstöður okkar í nefndinni. Þar segir, virðulegi forseti:

„Nú þegar liggur fyrir hönnun ferju sem miðast við aðstæður í Landeyjahöfn, m.a. því að nýtt skip risti grynnra en Herjólfur. Ferjan mun rista um 2,8 metra í stað 4,3 metra. Það er lykilatriði til þess að draga úr frátöfum og fjölga ferðum til Landeyjahafnar í stað Þorlákshafnar. Engu að síður mun sigling til Þorlákshafnar taka nánast jafn langan tíma og með Herjólfi nú.“

Í öðru lagi:

„Nýtt skip verður mun hagkvæmara í rekstri. Olíukostnaður lækkar vegna hagkvæmari vélabúnaðar og búist er við hlutfallslega fleiri ferðum til Landeyjahafnar, sem taka rúmlega tveimur klukkustundum styttri tíma en til Þorlákshafnar. Í heild gæti rekstrarkostnaður lækkað um 200 millj. kr. á ári.

Rekstrarkostnaður Landeyjahafnar lækkar einnig en meiri óvissa er um hve mikið það verður. Ljóst er þó að dýpkunarkostnaður ætti að lækka um a.m.k. 50 millj. kr. á ári.

Öryggi eykst til muna því að ný ferja verður umhverfisvæn tvinnferja með rafmagnsmótorum sem ganga fyrir ljósavélum. Einnig verða rafhlöður en þær hafa að vísu takmarkaða hleðslu. Rafvélar svara stjórntækjum hraðar og bæta stjórnhæfni ferjunnar sem eykur sérstaklega öryggi innsiglingarinnar í Landeyjahöfn. Auk þess verða uppfylltar öryggisreglur sem kveða á um að farþegarými sé ekki fyrir neðan bíladekk eins og nú er.“

Jafnvel þó að sá sem hér stendur sé sísjóveikur landkrabbi skilur maður að ef við erum með skip sem getur bara siglt inn í höfnina á 12 mílna hraða er stór munur á því og nýja skipinu sem getur siglt öllu hraðar þar inn. Gagnrýni hefur komið upp á það. Menn hafa haldið því fram að nýja skipið sé verra sjóskip þegar kemur að siglingum í Þorlákshöfn og benda þá á eins og kemur hér fram að farþegarými er ekki fyrir neðan bíladekk heldur fyrir ofan. Vegna sjóveikinnar hef ég iðulega reynt að finna mér stað í skipinu eins langt niðri og mögulegt er enda er það mun þægilegra en að vera ofar þegar ásigkomulagið er slíkt en öryggisástæður eru fyrir því að það er ekki gert. Eftir Estonia-slysið, það alvarlega slys þar sem fjöldi manns lét lífið, voru settar reglur sem kváðu á um að farþegarými mættu ekki vera fyrir neðan bíladekk. Herjólfur núna er með sérstöðu ef við berum okkur saman við ferjur á þeim stöðum sem við viljum bera okkur saman við, í Norður-Evrópu, þar sem þær öryggiskröfur, sem eru að stórum hluta komnar til út af þessu alvarlega slysi sem ég vísaði í áðan, eru ekki uppfylltar.

Áfram úr nefndarálitinu:

„Þjónusta við Vestmannaeyjar batnar. Miðað er við að ferðum fjölgi um tvær á viku yfir sumartímann auk þess sem gert er ráð fyrir að sumartímabilið verði lengt um einn mánuð. Útboðsgögnin miða við 69 metra langa ferju sem getur flutt 540 farþega. Ferjan verður álíka stór og Herjólfur en getur tekið allt að 20 fleiri bíla í hverri ferð.

Að áliti nefndarinnar hefur undirbúningur verið vandaður og viðunandi. Óháðir erlendir aðilar í Hollandi og Þýskalandi hafa yfirfarið athugasemdir Vegagerðarinnar sem snúa að mestu leyti um hvernig nýju ferjunni gangi að sigla inn í Landeyjahöfn miðað til tiltekna dýpkun hafnarinnar sökum sandburðar. Hermilíkön hafa verið notuð bæði hérlendis og erlendis til þess að hanna ferjuna sem best fyrir Landeyjahöfn. Þá hefur ráðgjafarfyrirtæki fjallað um valkosti við fjármögnun og rekstur nýrrar ferju. Sérstök smíðanefnd á vegum innanríkisráðuneytis hefur haldið utan um verkþætti undirbúningsvinnunnar og leitaði hún til margra sérfræðinga og hafði samráð við aðila sem koma að málinu, svo sem fulltrúa Vestmannaeyjabæjar og Eimskips hf.

Nefndin bendir á að margvísleg óvissa er samt sem áður bundin nokkrum atriðum sem hér hafa verið reifuð. Sérstaklega er erfitt að spá fyrir um hve mikið þarf að dýpka í Landeyjahöfn. Nú þarf að vera 7 metra dýpi fyrir Herjólf en 5 metrar eru áætlaðir fyrir nýja ferju. Önnur atriði sem nefndin yfirfór snúa að höfninni, svo sem möguleikum á landföstum dýpkunarbúnaði frekar en hönnun ferjunnar og tengjast því ekki frumvarpinu beint. Þar sem svo margir óvissuþættir tengjast siglingu nýrrar ferju til Landeyjahafnar telur nefndin að ekki eigi að selja Herjólf fyrr en reynsla verði komin á nýja ferju.“

Þegar menn hlusta á gagnrýnisraddirnar miða þær fyrst og fremst að höfninni, Landeyjahöfn. Enginn veit hvernig muni ganga með Landeyjahöfn á næstu árum og áratugum en það er alveg augljóst að nýtt skip mun geta nýtt höfnina betur en það skip sem fyrir er. Ég held að það væri óskynsamleg ákvörðun að gefa Landeyjahöfn upp á bátinn. Við verðum að átta okkur á því að það yrðu grundvallarbreytingar fyrir lífsviðurværi þeirra sem búa í Vestmannaeyjum. Það tengist auðvitað öllum landsmönnum og ekki síst þeim sem landið heimsækja því að það er alveg gríðarlega stór munur á því hvort við erum að tala um siglingar á milli lands og Eyja frá Landeyjahöfn eða frá Þorlákshöfn. Við skulum vona að okkur muni ganga betur með Landeyjahöfn en hefur gengið fram til þessa. Í það minnsta þarf ekki mikla bjartsýni til að segja að það sé nokkuð öruggt að fleiri ferðir verði farnar með nýrri ferju sem hentar þessari höfn en þeirri ferju sem er til staðar núna.

Mörgum kann að finnast þetta dýrt. Auðvitað er um mikla peninga að ræða en hins vegar er mikilvægt að fram komi að lengi hefur verið leitað að ferju sem mundi henta við þessar aðstæður til að leigja. Ekki aðeins hafa hefðbundin yfirvöld gert það og Vegagerðin heldur tók bæjarstjórn Vestmannaeyja það sömuleiðis upp á sína arma að leita. Menn hafa því miður ekki fundið annan valkost.

Virðulegi forseti. Eftir að hafa farið vel yfir málið, því að það er það sem hv. fjárlaganefnd gerði áður en við fengum málið til okkar vegna þess að við vissum að þetta mál kæmi hér upp, er niðurstaða mín sú að það sé skynsamlegt að samþykkja þetta frumvarp. Ég vonast til þess að við fáum líka góð tilboð því að sjaldan hefur ástandið verið betra, ef þannig má að orði komast, til að fjárfesta í þessu miðað við verkefnaástandið í skipasmíðum. Þess vegna skiptir máli að klára þetta núna. Það er enginn vafi að bættar samgöngur við eyjarnar munu gera líf landsmanna betra, ég tala nú ekki um fleiri valkosti fyrir ferðamenn (ÖS: … ríkissjóð …) og ég hvet sérstaklega hv. þm. Össur Skarphéðinsson til að heimsækja Vestmannaeyjar því að ég veit að vel yrði tekið á móti honum, enda einstaklega vinsæll maður. (Gripið fram í.) Ég held að þetta séu góð lokaorð í þessu máli sem tengist hv. þingmanni eins og öllum öðrum Íslendingum.