145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[18:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þeir vita sem fylgst hafa með mér í gegnum árin að ég hef alltaf verið í hópi þeirra sem dáðst hafa hvað mest að hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Oft hef ég komið hér upp til að mæra ræður hans og mér hefur oft tekist að sjá í þeim meiri efnivið en jafnvel mörgum flokksbræðrum hans og -systrum. En það verð ég að segja að mér hefur oft þótt honum takast betur upp en í þeirri ræðu sem hann flutti hér áðan.

Það kann vel að vera að það sé rétt á þessu stigi máls að við ráðumst í þetta verkefni, en það eru til mörg og miklu betri rök en þau sem hv. þingmaður flutti. Ég verð að segja að ræða þingmannsins reis þó hvað hæst undir lok hennar þegar hann bauð mig velkominn til Vestmannaeyja. En þá vil ég að það liggi algerlega skýrt fyrir að í Vestmannaeyjum hefur mér alltaf fundist ég vera aufúsugestur, ef frá er talið í fyrsta skiptið þegar ég kom til Eyja sem ungur sjómaður og Vestmannaeyingar tóku á móti mér með því að senda á mig Bjössa í Klöpp sem slóst við mig á bryggjunni. En þá eins og alltaf hafði hið góða sigur. Og þegar þessari umræðu lýkur er ég viss um að við verðum búin að ræða okkur til niðurstöðu. En ég dreg stórlega í efa að það verði á grundvelli þeirra röksemda sem hv. þingmaður flutti hér áðan og segi þó algerlega skýrt að ég er alltaf á bandi Vestmannaeyja.