145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[18:33]
Horfa

Frsm. fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og þær spurningar sem hv. þingmaður bar fram. Ég mun reyna að svara þeim eftir bestu getu. Ég varð bara ekki var við neina. En ég held að það sé allt satt og rétt sem hv. þingmaður sagði. Af því að hér erum við að tala um alvöru þingmann, sem ég hef að sjálfsögðu alltaf litið upp til og hugsað hlýtt til, var ég að vonast til að hv. þingmaður mundi bæta í það sem vantaði hjá mér í framsöguræðu minni, því að enginn er betur til þess fallinn að bæta í ræður en hv. þm. Össur Skarphéðinsson. (ÖS: Hvað með jarðgöngin?) Ég bíð bara spenntur eftir því að hv. þingmaður komi með efnislega athugasemd við það sem hér hefur fram komið og ég veit að í næsta andsvari — er þetta ekki andsvar, virðulegi forseti? Mér líst að vísu vel á þetta. Mér sýnist að ég geti talað hérna í 14 mínútur.

(Forseti (SilG): Nei, það er rétt hjá hv. þingmanni. Hv. þingmaður er í andsvari og líklega er tíma hans um það bil að ljúka.)

(ÖS: Ég vil fá 14 mínútur.)

Hv. þingmaður þurfti að segja frá mörgu og ég þarf eiginlega að fá að heyra betur hvað fór á milli hans og Bjössa í Klöpp þegar þeir hittust við höfnina. Við verðum að fá betri upplýsingar um það. En það væri ágætt að fá efnislega athugasemd við framsöguræðuna og málið, virðulegi forseti.