145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[18:56]
Horfa

Frsm. fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara út af orðum hv. þingmanns, svo enginn haldi að ekki hafi verið hlustað á þessi varnaðarorð í hv. fjárlaganefnd, kemur fram í nefndarálitinu og við fórum alveg sérstaklega yfir það að kjarni málsins er að ferjan mun rista 2,8 metra í stað 4,3 metra. Það er stórt mál, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, að grunnristan gerir það að verkum að það mun líklega ganga betur að sigla inn í Landeyjahöfn.

Á sama hátt er þetta auðvitað ekki eins skip og 2008 vegna þess að eðli máls samkvæmt hafa orðið framfarir í skipasmíðum, m.a. eru auknar öryggiskröfur. Sömuleiðis hefur tækninni fleygt fram og það væri óskynsamlegt ef við tækjum ekki mið af því. Ég spurði sérstaklega um það vegna þess að mér fannst ómakleg gagnrýni sem snýr að því að enginn óháður aðili hafi komið að þessu. Óháðir aðilar komu að því að taka út akkúrat þessa hönnun og þessa þætti. Hér eru bara tilgreind tvö lönd en þau voru þrjú. Þegar upp er staðið þurfum við að taka ákvörðun og hún snýst um það hvort við ætlum að nota Landeyjahöfn eða ekki. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að allir vita söguna um Landeyjahöfn. En við þurfum þá bara að taka þá ákvörðun að segja: Við ætlum ekkert að nota hana lengur því að við getum ekki boðið íbúum landsins upp á að þeirra helsti ferðamáti uppfylli ekki neinar öryggiskröfur. Því miður er það þannig að annaðhvort byggir maður ferju eða ekki. Ef við gætum byggt einn (Forseti hringir.) tíunda af ferjunni og gert hitt einhvern tíma seinna væri það í lagi en þetta er eyja og þangað verða að vera samgöngur.