145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[19:01]
Horfa

Frsm. fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. fjárlaganefnd fékk alla þá aðila, auðvitað ekki alla, (ÁsF: Dofra Eysteinsson?) en þá sem hafa helst gagnrýnt þessa aðgerð, á fund nefndarinnar. Við hlustuðum á þá aðila. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef — eins og ég hef lýst áður er ég sísjóveikur landkrabbi og enginn sérfræðingur þegar kemur að þessum þáttum — er ástæðan fyrir því að menn sigla ekki hraðar en raun ber vitni einfaldlega sú að þá líður fólkinu um borð afskaplega illa. (Gripið fram í: Ertu þá líka …?) Menn geta ekki verið á mjög miklum hraðsiglingum með almenna farþega á úthafinu. Ég átta mig ekki alveg á gagnrýninni varðandi sjómílurnar.

Stóra málið er að það hlýtur samt að vera, og hv. þingmaður hlýtur að vera sammála því, gríðarlega mikill munur á að sigla inn í Landeyjahöfn annars vegar á 12 sjómílum og hins vegar þeim hraða sem viðkomandi skipstjóri vill sigla á.

Auðvitað þarf að rannsaka Landeyjahöfn sem hefur ekki gengið eins og lagt var upp með. Það er algjörlega ljóst. En við þurfum að taka ákvörðun um það og ég efast um að það sé nein töfralausn í boði miðað við það að búið er að hlusta á alla þessa sérfræðinga. En við þurfum að taka ákvörðun um það hvort við ætlum að taka einn stærsta stað á landsbyggðinni þar sem er fjöldi íbúa og gríðarlega mikið atvinnulíf, m.a. ferðaþjónusta, og segja við þennan landshluta að hann verði bara út undan af því að við ætlum að skoða þessa hluti betur. Það er búið að skoða þessa ferju í tíu ár. Það er búið að fá aðila annars staðar að í tengslum við þessa hönnun. Það var staðfest í umfjöllun nefndarinnar. Það er ekki þannig að óháðir aðilar hafi ekki komið að því. Ég get farið betur í það og mun fara betur í það ef þess er æskt í umræðunni hér á eftir.