145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[19:03]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. framsögumanni þessar fyrirspurnir og vek athygli á því að ný ferja mun aldrei bjarga vandamálum hafnarinnar. Þau sitja alltaf eftir. Við sitjum eftir með vandamál hafnarinnar. Við sjáum það núna, það hefur aldrei verið hreinsað jafn mikið og dælt eins úr höfninni og í vor. Það fór gríðarlegur peningur í að dæla. Það hefur aldrei verið jafn góð aðstaða til að sigla í Landeyjahöfn og núna. Skipstjórarnir á Herjólfi eru yfir sig ánægðir, hafa aldrei haft jafn mikinn sjó undir skipinu í höfninni. Það er gríðarlega mikilvægt. Það er enginn að tala um að taka eitthvað af Vestmannaeyingum eða íbúum í Eyjum með því að ræða þessi mál á þennan hátt. Við erum fyrst og fremst að tala um að það sé mikilvægt að leggja fé í rannsóknir. Það er grundvallaratriði núna að leggja fé í rannsóknir um hvernig megi laga höfnina. Það er alveg kýrskýrt að nýr Herjólfur verður lengi að sigla fram og til baka í Þorlákshöfn í brælum. Það verða ekki þægileg ferðalög, það er alveg ljóst. (GÞÞ: Þau hafa aldrei verið það.) Nei, og hafa kannski aldrei verið það.

Þó að ég sé ekki skipstjóri, hv. þingmaður sem kemur hér á eftir gæti leyst úr því, veit ég að skipið mun aldrei sigla á 12 mílna hraða inn í þessa höfn vegna þess að hún er svo stutt. Eitt af vandamálunum við þann Herjólf sem nú er í notkun er að stjórnhæfni hans er ekki svo mikil að hægt sé að sigla honum í rólegheitum inn í höfnina. Ný ferja er búin einhverjum fullkomnustu stjórntækjum sem völ er á, það er engin spurning, og ný ferja hefur gríðarlega mikla stjórnhæfni en að sama skapi viðkvæman búnað sem þolir illa sand og er alltaf lægsti punkturinn á þessu grunnrista skipi. Auðvitað fylgja kostunum einhverjir gallar en höfum það að leiðarljósi (Forseti hringir.) að bæta samgöngur við Eyjar og þora að tala um þá hluti sem við þurfum að gera. Við verðum að leggja fé í að rannsaka höfnina til að nýja ferjan sem við erum að fara að byggja núna geti siglt í Landeyjahöfn.