145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[20:31]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er svo sem ekkert hissa þótt menn spyrji af hverju þetta er ekki löngu búið, en eins og ég sagði í ræðu minni skil ég að menn hafi aðeins hikað. Ég var ekki hérna á síðasta kjörtímabili. Ég hef varað við þessu máli, að við værum að fara rétta leið. Það er búið að rannsaka. Það er búið að moka og dæla sandi þarna fyrir fleiri hundruð milljónir á hverju einasta ári. Auðvitað læra menn eitthvað af því. Það þarf ekki vísindalega rannsókn á því. Menn hafa prófað sig áfram og hafa rekið sig á að að ekki ganga allir hlutir upp. Ég fagna því að menn hafi þó farið fetið og ekki eytt 4, 5, 6 milljörðum án þess að reyna að fá botn í málin.

Fjárlaganefnd er að ræða útboð. Það er umfjöllunarefnið í nefndinni. Þetta frumvarp snýst um hvort það sé rétt og hvort þeir eigi að fá leyfi til að fara í útboð, um það snýst málið. Fjárlaganefnd hefur reynt að finna ástæður og fara aðeins dýpra í það áður en þeir gefa leyfi til að bjóða út einhverja 5 milljarða. Það eru kannski einhverjir hissa (Forseti hringir.) á því að við skulum reyna að skoða það vel.