145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[20:49]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt, ég man eftir þessu núna í áliti meiri hlutans fyrir tveimur árum. Ég biðst afsökunar á því að hafa sagt að aldrei hafi verið minnst á það.

Það að fullt af fólki hafi dáið í Estoniu á sér kannski líka aðra sögu en bara þá að bílaþilfarið hafi verið niðri, við vitum það. Vissulega er þetta umhverfisvænna skip, ég ætla ekkert að draga úr því og það er mjög ánægjulegt í sjálfu sér. Hér er talað um að líklegt sé að við getum fengið gott tilboð. Það eru samt ákveðnar efasemdir um að þessi tími, sumartíminn, sé heppilegastur í útboð, en vonandi fáum við gott tilboð. Við skulum vona það. Ef frumvarpið verður að veruleika þá skulum við sannarlega vona það fyrir hönd íbúa og ríkissjóðs. Það kemur fram í álitinu að rekstrarkostnaður í heild gæti lækkað og ljóst sé að dýpkunarkostnaður ætti að lækka. Þetta eru tölur sem gert er ráð fyrir, en það er ekkert í hendi með þær, sérstaklega hvað varðar höfnina, við vitum það alveg. Við fengum eins og hv. þingmaður veit mann sem er búinn að vera að vinna við að dýpka höfnina og líka mjög víða erlendis sem sagði að þetta væri ekki gott eins og þetta væri og hann sæi ekki fyrir sér að þetta gæti orðið sómasamlegt á næstu árum. Þar komu líka inn einmitt þessir þættir, þótt ég geti ekki farið tæknilega út í þá, eins og hversu djúpt ferjan ristir o.s.frv.

Auðvitað er ekki hægt að tala um annað en að þjónustan batni þegar ferðatíðni eykst, vissulega, en hún batnar yfir hásumartímann. Það þýðir að vertarnir hafa meira upp úr sínu sem er frábært, en fólk vill líka komast á milli með skynsamlegum hætti yfir vetrartímann. Það er kannski það sem við höfum fengið mestu gagnrýnina á. Ég er ekki að halda því fram að þetta sé allt alómögulegt, en það eru samt efasemdir. Það sem ég nefndi áðan og þingmaðurinn svaraði ekki var samgönguáætlun.