145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[21:03]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ræði hér nefndarálit um frumvarp til laga um heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju. Eins og komið hefur fram í umræðunni var þessu máli beint til fjárlaganefndar eins og vera ber vegna þess að þetta er frumvarp til laga um heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju. Í raun fjallar þetta um fjármögnun á byggingu nýrrar ferju til Vestmannaeyja. Það verður þó að segja eins og er að þegar metið er hvort þessar fjárhagslegu forsendur standist þá er komið inn á verksvið samgöngunefndar; það hefur verið nefnt hér í umræðunni að menn hefðu viljað sjá málinu vísað til umhverfis- og samgöngunefndar. Ég er sammála því. Umhverfis- og samgöngunefnd óskaði eftir því að fá málið til umsagnar. Þingflokkur Framsóknarflokksins var sammála því ferli, en mér skilst að sökum tímaskorts hafi það ekki verið hægt, það eru þær upplýsingar sem ég fæ, og jafnvel hafi ekki gefist tími til að svara þessu erindi umhverfis- og samgöngunefndar.

Því er fullt tilefni til að fara mjög ítarlega héðan úr ræðustól ofan í þetta mál og fjalla um það út frá forsendum samgangna. Ég hef því hugsað mér að gera það hér, en vil segja að þegar okkur var ljóst að búið væri að taka málið út þá var nefndin einróma sammála því að þetta mál væri þess eðlis að samgöngunefnd þyrfti að skoða það mjög ítarlega vegna þess, eins og kemur fram í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar, að margvísleg óvissa er í þessu máli þrátt fyrir þau atriði sem nefndin kemur inn á; mikil óvissa um margt og ég held að það sé rétt að samgöngunefnd, þegar þing kemur saman næsta haust, fari mjög ítarlega ofan í allar þær forsendur. Jafnvel þó ég styðji þetta mál heils hugar, eins og ég styð öll samgöngumál víðs vegar um landið, þá er það á okkar ábyrgð að kanna alla möguleika og hvernig hægt sé að tryggja samgöngur með bestum hætti til Vestmannaeyja.

Ég er einn af þeim sem fagnaði mjög uppbyggingu Landeyjahafnar á sínum tíma og taldi þar um mikla og góða samgöngubót að ræða. Maður tók eftir því hversu mikil áhrif þetta hafði á samfélagið á svæðinu. Við sem störfum í þessum málaflokki áttum okkur á því að samgöngumál eru ekki bara um það hvernig fólk kemst á milli staða, þau eru líka velferðarmál. Það liggur fyrir að sameina verði heilbrigðisstofnanir víðs vegar um landið og gert er ráð fyrir því að fólk þurfi að ferðast um lengri veg en áður. Við horfum líka upp á það að væntanlega mun hátæknisjúkrahús rísa við Hringbraut. Þó að margir, þar á meðal ég, hafi lýst verulegum efasemdum um að það sé rétt staðsetning á þeim spítala, þá verða samgöngumálin að vera í lagi.

Við þurfum líka að hafa í huga að Reykjavíkurborg hefur það á stefnu sinni að neyðarbrautin fari á Reykjavíkurflugvelli, að norður/suður-brautin fari árið 2022 og Reykjavíkurflugvöllur allur árið 2024 án þess að fyrir liggi hvað komi í staðinn fyrir það mikla samgöngumannvirki. Án þess að Alþingi hafi rætt það hér og tekið ákvörðun um hvort það verði að veruleika, þá er það einbeitt stefna borgaryfirvalda í Reykjavík að Reykjavíkurflugvöllur fari. Þess vegna styð ég það að farið verði í útboð á nýrri Vestmannaeyjaferju. Sú samgöngubót sem kom með Landeyjahöfn var gríðarlega mikilvæg og vonandi mun sú leið sem er lýst hér verða farsæl og til þess fallin að auka ferjusiglingar á milli lands og Eyja.

Ég hef ekki sömu áhyggjur og félagi minn, hv. þm. Páll Jóhann Pálsson, en ég hlustaði vel á hans mál og veit að hann er reyndur sjómaður og þekkir þessi mál gríðarlega vel. Ég hef kynnt mér þau á öðrum vettvangi og reynt að afla mér gagna og fá upplýsingar og tel að þetta sé mjög hagkvæm leið. Ég tel að það sé rétt, sem kemur fram í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar, þar sem bent er á nokkra ávinninga af framkvæmdinni. Í fyrsta lagi má nefna að nýtt skip mun rista grynnra en Herjólfur, að ný ferja mun rista um 2,8 metra í stað 4,3 metra. Það er algjört lykilatriði, til að draga úr frátöfum og fjölga ferðum til Landeyjahafnar í stað Þorlákshafnar. Ég held að það sé líka rétt að nýtt skip komi til með að verða mun hagstæðara í rekstri, vegna þess að olíukostnaður mun lækka vegna hagkvæmari vélabúnaðar og þar með er hægt að búast við hlutfallslega fleiri ferðum til Landeyjahafnar sem munu taka rúmlega tveimur klukkustundum styttri tíma en til Þorlákshafnar.

Ég fagna því að það sé mat fjárlaganefndar og fjármálaráðuneytisins að hægt sé að lækka rekstrarkostnað um heilar 200 millj. kr. á ári, það munar um minna. Þetta er fé sem gæti nýst í vegaframkvæmdir, uppbyggingu hafna eða flugvalla, viðhald og nýframkvæmdir og munar um hverja krónu í þennan málaflokk. Svo er eitt sjónarmiðið enn sem ég held að halda verði mjög til haga og það er að rekstrarkostnaður Landeyjahafnar lækkar þó að fjárlaganefnd bendi á að enn sé töluverð óvissa um hve mikið það verði. Þau meta það þó þannig að dýpkunarkostnaður ætti að lækka um að minnsta kosti 50 millj. kr. á ári og munar um minna í þeim efnum. Síðan er það þáttur sem við höfum fjallað mjög um í umhverfis- og samgöngunefnd, það er öryggi. Við höfum rætt gríðarlega mikið öryggismál á vegum, sérstaklega með fjölgun ferðamanna. Það er ljóst að aukið álag á vegum er ekki bara þannig að vegir verði verr úr garði gerðir og þurfi meira viðhald, öryggi þeirra sem fara um er einnig ábótavant. Þess vegna höfum við reyndar talað mjög fyrir því að það sé rétt og eðlilegt að styrkja ferjusiglingar og annað, og líka koma fólki meira í loftið í innanlandsflug til að minnka álag á vegakerfinu. Hér er sagt að öryggi muni aukast til muna því að ný ferja verður umhverfisvæn tvinnferja með rafmagnsmótorum sem ganga fyrir ljósavélum og þar verði einnig rafhlöður, en þær hafa að vísu takmarkaða hleðslu. Þessar rafvélar svara stjórntækjum hraðar og bæta stjórnhæfni ferjunnar sem eykur sérstaklega öryggi innsiglingarinnar í Landeyjahöfn. Auk þess verða uppfylltar öryggisreglur sem kveða á um að farþegarými sé ekki fyrir neðan bíladekk eins og nú er. Það var reifað hér í ágætri ræðu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar af hverju þetta er og vitnað í slys sem hafa orðið annars staðar í heiminum.

Halda verður því til haga að þjónusta við Vestmannaeyjar batnar. Það er nú kannski einhver stærsta forsendan í þessu vegna þess að þetta er byggðamál til þess að styrkja byggð í Vestmannaeyjum, það er ekki bara til að tryggja að fleiri ferðamenn komi til þessarar fallegu eyju, heldur líka að íbúar sem þar búa geti notað betri þjónustu bæði í ferðalögum til og frá og einnig varðandi aðföng og annað. Miðað er við að ferðum muni fjölga um tvær vikur yfir sumartímann, auk þess sem gert er ráð fyrir að sumartímabil verði lengt um einn mánuð þar sem gríðarlegur ávinningur getur orðið af því. Hér er bent á að útboðsgögnin miði við 69 metra langa ferju sem geti flutt um 540 farþega. Ferjan verði álíka stór og Herjólfur, en geti tekið allt að 20 fleiri bíla í hverri ferð sem ég held að geti skipt gríðarlega miklu máli, stytt biðtíma, bæði í Vestmannaeyjum og Landeyjahöfn, þ.e. fyrir þá sem þurfa að koma bílum sínum yfir til Vestmannaeyja.

Hér kemur fram að nefndin álíti að undirbúningur hafi verið vandaður og viðunandi. Mér sýnist að undirbúningur við þetta hafi verið svipaður og svipað vandaður og þegar ákveðið var að ráðast í gerð Vaðlaheiðarganga, sem hefur verið gagnrýnt, ekki ósvipað og þessi framkvæmd, en mun reynast gríðarleg samgöngubót fyrir Norðurland. Fréttir herma að þar gangi framkvæmdir vel þrátt fyrir skakkaföll. Við búum í þannig landi að veður geta verið válynd og tekið sífelldum breytingum á örskömmum tíma og landið okkar er dýnamískt, það er okkar styrkur, en það getur líka reynst erfitt þegar þarf að framkvæma og Vaðlaheiðargöng hafa alveg eins og Landeyjahöfn orðið fyrir ýmsum skakkaföllum þegar menn hafa ekki séð fyrir hvernig veður og aðrir þættir hafa haft áhrif á framkvæmdina. En mér sýnist á öllu að hér hafi verið vandað vel til verka. Hér er líka gert ráð fyrir því að kostnaður ríkissjóðs verði, þegar upp er staðið, ekki mikill.

Það er það sama með Vaðlaheiðargöng, en við höfum horft upp á það núna að undanförnu að farþegafjölgun í þessum samgöngumannvirkjum hefur reynst vel yfir því sem menn hafi spáð. Umferð um Héðinsfjarðargöng hefur verið nefnd sem dæmi. Það var umdeild gangaframkvæmd milli Ólafsfjarðar, Héðinsfjarðar og Siglufjarðar. Það var gagnrýnt og margir sögðu að umferðarþungi þar yrði aldrei sá sem Vegagerðin sagði að hún gæti orðið. Í Héðinsfjarðargöngum verður hún svo margfalt meiri, sem er jákvætt; hefur styrkt byggðarlagið, tengt saman byggðir, gert að verkum að hægt væri að sameina sveitarfélög og allt þetta er gríðarlega jákvætt í byggðalegu tilliti. Ég held að það sé ágætt að sjá Vaðlaheiðargöngin í svipuðu ljósi, þar held ég að menn geti búist við því að umferð verði töluvert mikið meiri en varfærnustu áætlanir gerðu ráð fyrir. Þannig að útkoman ætti að verða töluvert betri en svartsýnustu menn þora að vona. Ég er sannfærður um að það verði raunin með Landeyjahöfn að þessi undirbúningur, sem hefur verið vandaður og viðunandi, reynist það góður grunnur fyrir framkvæmdina að það muni tryggja góðar samgöngur til Vestmannaeyja um ókomna framtíð.

Fengnir voru óháðir aðilar í Hollandi og Þýskalandi til að yfirfara athugasemdir Vegagerðarinnar sem snúast að mestu leyti um hvernig nýju ferjunni gangi að sigla inn í Landeyjahöfn, miðað við tiltekna dýpkun hafnarinnar sökum sandburðar. Þar hefur sú leið verið farin að hermilíkön hafa verið notuð, bæði hérlendis og erlendis, til þess að hanna ferjuna sem best fyrir Landeyjahöfn. Þá hefur ráðgjafafyrirtæki fjallað um valkosti við fjármögnun og rekstur nýrrar ferju. Sérstök smíðanefnd á vegum innanríkisráðuneytis hefur haldið utan um verkþætti undirbúningsvinnunnar og þessi smíðanefnd hefur leitað til margra sérfræðinga og haft samráð við aðila sem koma að málinu, svo sem fulltrúa Vestmannaeyjabæjar og Eimskips hf.

Það er reyndar eitt atriði sem ég hef velt vöngum yfir, og ég geri mér grein fyrir því að fjárlaganefnd hafði ekki nægilegan tíma til að fara yfir það atriði, en í heiðarleika sínum segir nefndin að þar sem svo margir óvissuþættir tengist siglingu nýrrar ferju til Landeyjahafnar telji nefndin að ekki eigi að selja Herjólf fyrr en reynsla verði komin á nýja ferju. Þetta er einmitt þáttur sem umhverfis- og samgöngunefnd mun taka til skoðunar þegar málið verður tekið fyrir, vonandi næsta haust ef tími gefst. Ég reikna með að nefndin muni reyna að finna þann tíma og finna alla þessa þætti vegna þess að mikil óvissa er bundin í því hversu langan tíma það taki að þannig reynsla verði komin á nýja ferju að menn geti verið algjörlega 100% vissir um að hún sé það allra, allra besta. Auðvitað viljum við sem viljum ábyrgð í rekstri ríkissjóðs ekki skilja eftir svona holu um sölu á Herjólfi sem á að skapa tekjur fyrir ríkissjóð.

Mér þykir líka vænt um þessa setningu sem kemur í áliti nefndarinnar, sérstaklega þar sem Slippurinn á Akureyri, Skipasmíðastöð Akureyrar, hefur náð gríðarlegum árangri og verið í miklum uppvexti undanfarin ár, þ.e. að bent er á að bæta megi við verkefni hjá þessum skipasmíðastöðvum og því ættu að vera ágætir möguleikar á hagstæðum samningum um nýsmíði ferju. Það eru aðilar á Akureyri sem eru afar spenntir fyrir nýsmíðum en ný skip hafa ekki verið smíðuð lengi og tel ég einsýnt að með þessu orðalagi sé verið að beina því til Alþingis og framkvæmdarvaldshafa að ný ferja verði byggð á Íslandi sem skapar bæði ávinning og tekjur.

Eins og ég sagði hér ætlaði ég mér að fara ítarlega yfir þetta. Ég hef reyndar í afar stuttu máli reifað sjónarmið. Ég tek eftir því að ég á mikið eftir af tíma mínum sem ég hef til að ræða þetta mál, en ég ætla ekki að lengja þessa orðræðu frekar. Ég sé að hér eru þingmenn sem eru óþreyjufullir og vilja komast í 2. umr., þannig að ég ætla að gefa töluvert eftir af ræðutíma mínum í þágu samvinnu og (Gripið fram í: Heyr, heyr.) sátta, en fagna því að Vestmannaeyjaferja sé komin á dagskrá og þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið fram hér í dag.