145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

skattar og gjöld.

667. mál
[21:41]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður vill ræða forsögu þessa máls. Ég fór yfir hana í ræðu minni. Þessi regla er tekin upp þegar komið er á laggirnar fjölþrepa skattkerfi. Það eru rökin væntanlega fyrir reglunni þegar um er að ræða fjölþrepa skattkerfi. Ég skil á móti rök hæstv. ráðherra þegar hann segir: Hér er verið að fækka þrepum, þá er eðlilegt að endurskoða þessar reglur. Ég vil taka það fram að þau rök sem ég fór yfir og taldi mikilvæg voru alls ekki öll þau rök sem hæstv. ráðherra fór með og hann vitnaði m.a. líka til annars yfirlýsts markmiðs sem ég er kannski ekki endilega sammála, en ég held að hv. þingmaður sem veitir andsvar hafi lýst sig sammála, sem snýr að því að einfalda skattkerfið. Hæstv. ráðherra hafði það sem rök í málinu að mikilvægt væri samhliða því að fækka þrepum og einfalda skattkerfið að taka t.d. út þessa reglu. Það eru að sjálfsögðu rök sem ég hef mjög oft heyrt frá hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, en það liggur fyrir að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins í efnahagsnefnd eru ekki á því að einfalda alla vega þennan þátt skattkerfisins miðað við nefndarálit meiri hlutans.

Í ljósi þess að nú er verið að fækka þrepum og yfirlýst markmið að gera það er auðvitað eðlilegt að svona regla sé tekin til endurskoðunar. Hún miðast við fleiri þrep en þau tvö sem er verið að fækka. Ég benti hins vegar á það á sínum tíma þegar málið var til umræðu í nefndinni, og hafði þá ekki endilega tekið jafn mótaða afstöðu til þess og ég hef nú gert með þessu nefndaráliti, að mikilvægt væri að greina það annars vegar út frá tekjum og hins vegar út frá ólíkum áhrifum á kyn. Eins og hv. þingmaður man þá var þeirra spurninga spurt þegar málið kom hér síðast fyrir. Í kjölfarið lagðist fjármála- og efnahagsráðuneytið í talsverða vinnu sem skilaði sér í því minnisblaði sem hér er vitnað til. Þetta er sú greining sem ráðuneytið skilar. Hv. þingmaður getur dregið hana í efa og talað um að meint markmið tekjuskattsbreytingarinnar hafi verið að gagnast millitekjuhópum. Ég er bara að vitna í yfirlýst markmið hæstv. ráðherra úr flokki hv. þingmanns.