145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

skattar og gjöld.

667. mál
[21:48]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég styð frumvarp ráðherrans eins og það var lagt fram. Ég fagna því að tryggingagjaldið er lækkað. Mér finnst það hefði átt að gera það fyrr og jafnvel hefði mátt lækka það meira en raun ber vitni. Tryggingagjaldið verður eftir þessa lækkun hærra en það var áður en það byrjaði að hækka eftir efnahagshrunið, ef forseti skilur orð mín. Það er sem sagt ekki aftur komið niður í það sem það var áður en það fór að hækka eftir efnahagshrunið þegar nauðsynlegt var að afla tekna hvar sem var og ekki síst vegna þess að það vantaði miklu meiri peninga í Atvinnuleysistryggingasjóð. Nú hefur það gerst með tryggingagjaldið að á meðan atvinnuleysið hefur minnkað hafa tekjurnar, þar sem ekki er þörf á þeim í sjóðinn, runnið beint í ríkissjóð. Þarna tel ég að standa hefði mátt öðruvísi að hlutum, meðferð á tryggingagjaldinu.

Hvað varðar samsköttunina, og þá tillögu sem fjármálaráðherrann leggur fram um að samsköttun hjóna sé afnumin og þannig eigi að afla þessara rúmu 3 milljarða kr. sem það kostar ríkissjóð að lækka tryggingagjaldið eins og hér er lagt til, þá styð ég það einnig. Ég skilaði nefndaráliti ásamt hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur sem hún hefur gert mjög góða grein fyrir hér á undan.

Ég vil að það liggi ljóst fyrir að ég styð frumvarp ráðherrans eins og það var lagt fram. Ég er á móti breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar um að halda samsköttuninni eins og er núna. Ég spyr: Hvernig á að brúa þetta rúmlega 3 milljarða kr. gat sem þá hlýtur að verða ef þá fjármuni vantar? Það er reyndar nær 4 milljörðum en 3, ég held að það sé 3,6, á meðan peninga skortir víða í þjóðfélaginu. Ég held að ég fari rétt með það að í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem var lögð hér fram og verður svo rædd nánar þegar við komum aftur saman í ágúst, sé einmitt talað um að þessir 3 milljarðar rúmir, eða nærri 4, sem koma vegna þess að af samsköttuninni verði látið, skipti máli þegar horft er fram á veginn með fjármálaáætlunina. Það skipti máli, til að eyða óvissu þar, að þessir peningar eigi að renna í ríkissjóð.

Þetta vildi ég segja: Ég fagna frumvarpi ráðherrans. Ég er á móti þeim breytingum sem meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar gerir á því.