145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

skattar og gjöld.

667. mál
[21:53]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld. Hv. þm. Brynjar Níelsson, framsögumaður meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar, fór vel yfir málið. Ég ætla að koma inn á tvo þætti í því máli sem eru tryggingagjaldið annars vegar og samsköttunin hins vegar. Hér er tekið mikilvægt skref til lækkunar á tryggingagjaldi og er það vel og jafnframt hluti af samkomulagi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Er ánægjulegt að sú stefna stjórnvalda kemur fram í nefndaráliti meiri hluta hv. nefndar að halda áfram á þeirri braut með frekari lækkun á komandi árum, enda vonandi forsendur til þess og þá til marks um heilbrigðan vinnumarkað og kraftmikið atvinnulíf.

Samsköttunin hefur þó nokkuð verið til umræðu. Hér er lagt til að samsköttun á milli skattþrepa falli brott, en meiri hluti hv. efnahags- og viðskiptanefndar er með breytingartillögu um að hún verði áfram heimil. Ég skrifa undir það nefndarálit meiri hluta nefndarinnar og tek undir með þeim rökum sem komu fram hjá hv. þm. Brynjari Níelssyni, framsögumanni málsins. Ég vil þó hér, virðulegi forseti, vísa í frumvarpið þar sem segir, með leyfi:

„Haustið 2015 var í frumvarpi til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2016 (2. mál) gert ráð fyrir að samsköttunarreglan félli brott ásamt miðþrepinu 2017“ — sem gerist þá næstu áramót — „enda reglan einungis talin fela í sér tilfærslu á tekjum milli 3. þreps og 2. þreps. Efnahags- og viðskiptanefnd gerði breytingartillögu við 2. umr. þar sem fallið var frá brottfalli samsköttunar milli þrepa frá 1. janúar 2017 og gert ráð fyrir því að millifæranlegur stofn mundi ekki lengur takmarkast við 50% af ónýttu „plássi“ í neðra þrepi hjá tekjulægri makanum heldur yrði engin slík takmörkun. Það hefði jafngilt kerfisbreytingu úr einstaklingsskattlagningu yfir í fulla samsköttun á fjölskyldugrunni.“

Það má segja að þetta sé kjarni máls. Við 3. umr. var sú breyting gerð að viðhalda 50% markinu. Meiri hluti hv. nefndar hefur ekki fallið frá þeirri meginskoðun sinni, virðulegi forseti, að heimila skuli áfram helmingstekjutilfærslu á milli efra og neðra þreps. Til rökstuðnings vísa ég enn og aftur til nefndarálits meiri hlutans og ræðu hv. framsögumanns meiri hluta nefndarinnar.

Eins og fram hefur komið í umræðunni mundi brottfall samsköttunar fela í sér ákveðna einföldun en kjarni málsins er sá að líta á heimili sem einingu og þá samsköttun sem þá meginreglu sem helgast af réttindum og skyldum sem hjón bera sameiginlega. Vil ég að lokum árétta stuðning og vísa í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar í máli 2, forsendur fjárlaga, fyrr á þessu þingi, en þar segir, með leyfi forseta, að í athugasemdum við það frumvarp hafi komið fram hver áhrifin yrðu ef þessu yrði breytt, þ.e. að samsköttunin félli brott, er varðar tekjuskatt samskattaðs fólks með 16,8 millj. kr. samanlagðan skattstofn á ársgrundvelli sem er tvöföld fjárhæð lægra þreps einstaklings samkvæmt nýju tillögunum; ef annað þeirra aflaði allra teknanna má gera ráð fyrir að skattur af þeim yrði 30% hærri en ef hvort þeirra aflaði helmings teknanna. Þessi skekkja eða þessi munur er til kominn af því að ef annað hefur allar tekjurnar skattleggst annað þeirra í efra þrepinu, en ef tekjurnar skiptast jafnt skattleggjast allar tekjurnar í því lægra. Það er því mat meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar að mikilvægt sé að þessi heimild haldist inni og telur nefndin að einföldunar- og skilvirknisjónarmið sem bent hefur verið á vegi ekki eins þungt og þeir hagsmunir einstaklinga sem þarna búa að baki.