145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

skattar og gjöld.

667. mál
[21:58]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég vil fá að víkja í örstuttu máli almennt að frumvarpinu og því nefndaráliti sem meiri hluti hv. efnahags- og viðskiptanefndar hefur sent frá sér og ég stend að. Ég vil til að byrja með fagna þeim áformum sem hér koma fram um lækkun tryggingagjalds og þeirri ágætu samstöðu sem hefur verið á þinginu um það mál. Ég tel efni til að ganga lengra í þeim efnum og hef væntingar til þess að það verði gert á næstu missirum fái menn sem eru áfram um það umboð til þess arna.

Ég vil vekja athygli á því að fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd var nokkur umræða um fyrirkomulag á áfengissölu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, en fréttir höfðu verið um það í vetur að áhöld kynnu að vera um að Fríhöfnin hefði heimild, samkvæmt lögum, til að selja þar áfengi eins og hún hefur þó gert óslitið í áratugi. Það sem vakti athygli mína í þeim fréttaflutningi, og í þeim fréttum, er að lögreglustjórinn á svæðinu hafði látið undir höfuð leggjast að svara beinum og skýrum fyrirspurnum um það mál svo mánuðum skipti, þannig að það er ekki nema vona að runnið hafi tvær grímur á þá sem aðild áttu að málinu, enda kom sú ósk fram fyrir nefndinni að gerð yrði lagabreyting til að taka af öll tvímæli um að einkaréttur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins utan Leifsstöðvar mundi ekki hamla sölu í Leifsstöð. Allt þetta mál og málatilbúnaður til og frá sýnir í hnotskurn hversu fráleitt það fyrirkomulag er sem er einkaréttur ríkisins á áfengissölu. Ég tel reyndar að velta mætti fleiri spurningum upp hvað varðar áfengissölu annars staðar en í tollfrjálsum verslunum og lýsti því sjónarmiði fyrir nefndinni að úr því menn teldu sig í fullum rétti til að selja þar áfengi teldi ég ekki ástæðu til að setja um það sérstakt ákvæði, menn mundu þá láta reyna á það fyrir dómi ef svo bæri undir, en allt að einu stend ég að áliti meiri hluta nefndarinnar hvað þetta varðar þar sem þetta er gert ótvírætt að einhverra mati að minnsta kosti.

Það sem ég vildi helst ræða hér er það ákvæði sem hefur verið til umræðu sérstaklega og hefur verið kallað heimild til samsköttunar, sem er kannski ekki alveg lýsandi fyrir það fyrirbæri sem um er að ræða. Hv. þingmaður, sem talaði hér á undan mér, Willum Þór Þórsson, lýsti aðdragandum svo sem ágætlega. Ég get vísað í hans ræðu hvað það varðar. En ég vil hins vegar árétta það, af því að það hefur komið fram í umræðum frammi fyrir nefndinni, að sú heimild fyrir samskattaða aðila að nýta ónýtt skattþrep til handa aðila sem lægri hefur tekjurnar til handa þess aðila sem hærri hefur tekjurnar er ekki sérstök ívilnandi regla sem tekin var upp árið 2009 þegar fjölþrepa tekjuskattskerfi var tekið upp. Þessi framkvæmd er þvert á móti í fullu samræmi við þá meginreglu skattaréttar, og reyndar hjúskaparréttar líka, að hjón séu samsköttuð, enda beri þau ábyrgð á framfærslu hvort annars.

Þessi meginregla hefur komið fram með ýmsum hætti, bæði í skattalögum og hjúskaparrétti, hvort hjóna beri ábyrgð skattskuldum; hún er komin fram með þeim hætti að hjón bera persónulega ábyrgð á skattskuldum hvort annars. Það er frávik frá þeirri meginreglu hjúskaparréttar að hjón beri ekki ábyrgð á öðrum skuldum en sínum eigin. Þetta er ein reglan. Þetta kemur líka fram í því að persónuafslátturinn er að fullu millifæranlegur milli hjóna. Þessi meginregla kemur líka fram í því að við útreikning og viðmiðun bóta til handa hjónum er miðað við að þau séu samsköttuð og miðað við tekjur beggja. Þannig að þetta er meginreglan.

Sú aðstaða kemur upp þegar menn kjósa, eins og vinstri stjórnin gerði á síðasta kjörtímabili, að flækja tekjuskattskerfið með þeim hætti að hafa mörg tekjuskattsþrep. Þá blasir það við hverjum manni, líka vinstri ríkisstjórninni sem ákvað þetta, að slíkt flækjustig skapar óheppilegar aðstæður og getur leitt til mjög ósanngjarnrar skattbyrði eins umfram annars. Það var þess vegna sem vinstri stjórnin sjálf réðst í að tryggja að ófyllt skattþrep, lægra skattþrep, færi ekki til spillis heldur mundi nýtast í þágu beggja hjóna og þar með í þágu þess heimilis sem um ræðir.

Hér hefur verið nefnt að sú regla sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd tryggði að mundi halda áfram næstu áramót — þrátt fyrir að verið væri að fella niður eitt þrep, við höfum eftir sem áður tvö tekjuskattsþrep — hefði tekjuáhrif, að þetta sé kostnaður fyrir ríkið upp á 3 milljarða. Það er reyndar ekki rétt, ekki nákvæmt með farið, vegna þess að þá er horft fram hjá því — ef menn vilja líta á þetta sem útgjöld ríkisins, sem það er auðvitað ekki, þetta eru ekki útgjöld, þetta eru minni skatttekjur en ekki útgjöld — að ríkið hefur haft af þessu útgjöld frá árinu 2009. Minni skatttekjur hafa verið á bilinu 1,5 milljarðar upp í 2 milljarða, ef ég man rétt, samkvæmt greiningu frá fjármálaráðuneytinu.

Þegar við tryggðum áframhald þessarar reglu um síðustu áramót, sem tæki þá gildi næstu áramót, væri þetta tekjutap eitthvað minna en 3 milljarðar; ég mundi skjóta á að þetta væri kannski rúmur einn milljarður.

Hér kemur fram það sjónarmið, eins og svo oft áður hjá vinstri mönnum, að hlutverk skattkerfisins sé að hafa áhrif á tekjudreifingu í landinu. Því er ég algjörlega ósammála. Ég held að það sé óhætt að segja að þetta sé kannski ekki almennt sjónarmið út frá skattarétti. Með hliðsjón af stjórnarskrárvörðum rétti til jafnræðis við skattlagningu er skattkerfið ekki heppilegt eða æskilegt tæki til að hafa áhrif á tekjudreifingu eða jöfnun í þjóðfélaginu. Þaðan af síður á að nota skattkerfið í sérstökum tilgangi eins og þeim sem hér hefur líka verið nefndur, í jafnréttisbaráttu. Skattkerfið verður að vera hlutlaust. Skattkerfið er bara tekjuöflunarkerfi. Það er afar brýnt að mönnum sé ekki mismunað með sköttum, enda er það sérstaklega tekið fram í stjórnarskránni að skattar þurfi að leggjast jafnt á alla og að sömu sjónarmið eigi við um alla. Skattkerfið á líka að vera kynlaust en ekki, eins og það virðist vera orðið í hugum einhverra, kynlegt. Þetta er mikilvægt atriði.

Ég vil líka nefna það í þessu sambandi að mér finnst svolítið hjákátlegt að heyra rætt um þessa heimild til samsköttunar svo að ég noti það orð — mér er nú illa við það vegna þess að þetta er ekki lýsandi fyrir það, þessi heimild til að flytja ónýtt skattþrep upp í næsta þrep, að með því sé vegið sérstaklega að stöðu kvenna í þjóðfélaginu. Höfum í huga að þátttaka kvenna á atvinnumarkaði er hvergi meiri en hér á Íslandi, 80%. Það er engin kona, ég held ég leyfi mér að fullyrða það, sem ákveður að vera heima hjá sér og fara ekki út á vinnumarkaðinn — sem vel að merkja getur alveg verið kona líka, makinn — í þeim tilgangi að láta maka sinn fá ófyllt tekjuskattsþrep og græða þannig mögulega 700 þús. kr. yfir árið. Það er afar langsótt sjónarmið og tekur enda ekki til þess, eins og ég segi, að hjón geti verið af sama kyni. Það fær ekki staðist að þetta sé sérstök aðför að konum að þessu leyti.

Aðstæður heimila, allra heimila, einhvern tímann á lífsleiðinni, eru gjarnan þannig að annar makinn þarf að vera heima um einhvern tiltekinn tíma. Það getur verið vegna þess að annar aðilinn er í námi. Vilja vinstri menn ekki bæta hag slíkra heimila og gefa þeim færi á að ljúka námi á meðan hinn makinn er fyrirvinna heimilisins? Fólk eignast börn, þá er bara annar aðilinn heima um einhvern tíma og kýs kannski að gera það lengur en lögbundið fæðingarorlof segir til um. Vonandi geta flestir leyft sér að vera örlítið lengur heima en það með börnum sínum. Þessi samsköttunarregla kemur til móts við það fólk.

Svo eru þeir, sem ég hef mesta samúð með í þessu, sem eiga ekki annarra kosta völ vegna veikinda en að vera heima, vegna sinna eigin veikinda, veikinda barna, til þess að sinna langveikum börnum. Þau heimili munar gríðarlega um það að fyrirvinnan borgi sömu skatta og heimilið við hliðina sem er með sömu heimilistekjur. Það getur munað 700 þús. kr. á tveimur heimilum sem hafa sömu heimilistekjur. Það heimili sem hefur eina fyrirvinnu borgar 700 þús. kr. meiri skatta ef þessi regla er ekki inni, heimildin til að flytja ónýtt skattþrep úr lægra þrepi í það efra; 700 þús. kr. Það munar öll heimili um minni fjárhæð. En ég ætla að leyfa mér að fullyrða að það er engin kona sem ákveður að vera heima hjá sér út af þeirri fjárhæð sérstaklega. Þetta kemur til móts við þau heimili sem um lengri eða skemmri tíma þurfa á því að halda að fyrirvinnan sé bara ein.

Að þessu leyti finnst mér þau sjónarmið sem koma fram í áliti minni hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar í raun vera fjölskyldufjandsamleg afstaða. Ég verð því miður, virðulegur forseti, að segja það. Ég vil að lokum nefna það af því að hér er mikið gert úr því að þetta hafi átt að vera til einföldunar á skattkerfinu — og ég er manna fyrst til að styðja einföldun í skattkerfinu — að staðreyndin er hins vegar sú að tekjuskattskerfið var flækt gríðarlega í tíð síðustu ríkisstjórnar, árið 2009, og það hefur ekki verið einfaldað aftur til baka í þeim mæli að hægt sé að hætta að hafa áhyggjur af þeirri auknu skattbyrði sem orðið getur á þeim heimilum með einni fyrirvinnu. Í því ljósi, þótt það kalli á einhverja umsýslu hjá skattyfirvöldum, sem ég hef hins vegar ekki heyrt þau kvarta sérstaklega yfir að þessu leyti — þetta er ekki flókið þannig lagað í framkvæmd. Þrátt fyrir að þetta sé vissulega smáflækjustig þá verður það réttlætt með vísan til þess að til staðar er flókið tekjuskattskerfi sem hefur ófyrirsjáanlegar afleiðingar og ósanngjarnar fyrir þau fáu heimili í landinu þar sem er ein fyrirvinna eða þar sem fyrirvinnan hefur töluvert hærri tekjur en makinn sem situr heima eða er með lægri tekjurnar.

Ég hvet alla sem hér hafa talað og hafa áhyggjur af flækjustiginu, og bera það fyrir sig í þessu máli, til að taka höndum saman og afnema síðan eitt tekjuskattsþrepið þannig að við hverfum hér aftur til áranna fyrir 2009 þegar tekjuskattsprósentan var bara eitt þrep.

Ég vil að lokum gera alvarlega athugasemd við þá athugasemd sem kemur fram í minnisblaði frá fjármálaráðuneytinu sem var lagt fyrir nefndina, þar sem segir að samsköttunarreglan auki ráðstöfunartekjur tekjuhærri heimila. Ef menn skilja þetta mál, eins og ég hef verið að lýsa því hér, þá er ekki um það að ræða að verið sé að hygla tekjuhærri á kostnað tekjulægri. Við erum með tvö heimili með sömu heimilistekjurnar. Mér finnst ákaflega miður að sjá þessa athugasemd í minnisblaði frá fjármálaráðuneytinu, einkum og sér í lagi í ljósi aðstæðna þeirra heimila sem hafa þurft á því að halda að það sé aðallega ein fyrirvinna.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum benda á það að um síðustu áramót, í desember síðastliðnum, var hér almenn samstaða um tillögu hv. efnahags- og viðskiptanefndar þegar hún lagði til að þessi samsköttunarregla héldi lýði næstu áramót þegar þrepunum verður fækkað úr þremur í tvö. Ég vona að ágætissamstaða náist um það aftur í þessum þingsal þótt menn hafi verið að hnýta í þetta með einhverjum hætti. Menn sjá vonandi ljósið í þessu máli eftir að hafa sofið á því.