145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

útlendingar.

728. mál
[22:48]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka frummælanda fyrir ræðu hennar, en við fjöllum um frumvarp til laga um útlendinga. Þetta er gríðarlega mikið mál. Hér er frumvarp upp á 190 blaðsíður og nefndarálit upp á margar blaðsíður. Það er margt mjög gott í frumvarpinu eins og vonlegt er. Þetta er með alstærstu frumvörpum sem hafa komið fram. Mér skilst að breytingartillögurnar séu um 80 frá nefndinni og mikið um lögfræðileg tæknileg atriði. Ég hef rætt þetta við marga lögfræðinga. Þeir hafa áhyggjur af því hversu mikill hraði er á málinu í gegnum þingið, þetta sé gríðarlega stórt mál sem þjóðin öll þurfi að fá tíma til að ræða. Í þessum sal er oft talað um að allir þurfi að fá að hafa sínar skoðanir og láta í ljós álit sitt á hlutunum. Mér finnst í jafn stóru máli og er á ferðinni það svigrúm ekki hafa verið gefið. Fram undan er sumarið og þing aftur í ágúst og það væri ekki úr vegi að gefa þjóðinni tækifæri á að kynna sér málið á þeim tíma og taka það svo fyrir aftur í haust.

Í upphafi frumvarpsins kemur fram að markmið laganna sé að tryggja að mannúð og skilvirkni ríki við meðferð stjórnvalda í málefnum útlendinga hér á landi. Það er göfugt og gott markmið og við erum öll sammála um það. Við viljum hjálpa fólki en það er spurning hvernig við gerum það. Gerum við það á okkar forsendum eða einhverjum öðrum? Breytingarnar á útlendingalögunum miða að því að auðvelda fólki aðgang að landinu. Það er slakað á kröfum til fólks sem hingað kemur og getur ekki framvísað pappírum sem sýna fram á réttmæti staðfestinga þeirra. Það er slakað á kröfum varðandi möguleika yfirvalda til að ganga úr skugga um hvort ákveðnar staðhæfingar eigi við rök að styðjast, eins og t.d. varðandi aldur. Í frumvarpinu er hvergi getið um öryggi landsins eða vikið að því. Sem dæmi má nefna að ef útlendingur sækir um hæli hér á landi og neitar að gangast undir aldursgreiningu er óheimilt að byggja synjun umsóknar á þeirri ástæðu einni.

Það er mikilvægt að geta leyst úr málum meints flóttafólks og hælisleitenda hratt og örugglega. Æskilegt væri að það færi aldrei frá þeim stöðum sem það kemur til með flutningstæki, skipi eða flugvél. Þá væri einnig æskilegt að yfirvöld hefðu þann mannafla og réðu yfir þeim úrræðum að geta vísað fólki út þegar í stað sem sýnir ekki fram á fullnægjandi heimildir um réttmæti þess að fá að dveljast hér á landi.

Við ætlum líka að taka vel á móti þeim sem koma hingað í réttmætum erindum. Umsækjanda um hæli skal standa til boða húsnæði, lágmarksframfærsla og nauðsynleg heilbrigðisþjónusta, þar á meðal vegna geðraskana og geðfötlunar. Þetta er vel boðið og mun betri kjör en við Íslendingar búum sjálfir við. Hér er húsnæðisskortur. Við erum að samþykkja lög í þinginu um almennar íbúðir, að byggja 2.300 íbúðir fyrir þá sem minnst hafa á milli handanna. Eldri borgarar fá ekki inni á dvalarheimilum og þeir sem þar búa búa við þau kjör að fá dagpeninga, rúmar 60 þús. kr. á mánuði, og þurfa að borga læknisþjónustu og heilbrigðisþjónustu. Varla eru það þau kjör sem við ætlum að bjóða þeim útlendingum sem hingað vilja koma.

Reynsla annarra þjóða sýnir að mikil fjölgun útlendinga sem geta komið hingað undir ýmiss konar yfirskyni og geta ekki eða vilja ekki framfleyta sér mun auka kostnað af þessu frumvarpi langt umfram áætlanir. Það hefur tíðkast til margra ára. Hingað kemur mikið af fólki til að vinna. Við þekkjum það og höfum unnið með fólki í mörg ár. Hér búa margir Pólverjar og austantjaldsfólk, fyrirmyndarfólk, sem hefur búið hér og komið til þessarar þjóðar þegar vantaði vinnandi hendur. Auðvitað er allt slíkt fólk velkomið til landsins. Það segir sig sjálft. Við höfum alltaf verið tilbúin að taka á móti þeim.

En við verðum að líta til þess og horfa á það sem aðrar þjóðir hafa gert og hvernig reynsla þeirra er af því að opna landamærin og hafa þau óheft. Svíar segja t.d. að þeir hafi verið barnalegir í málefnum útlendinga. Við þekkjum öll sögurnar sem þaðan berast í fréttunum síðustu daga. Ég ætla ekki að fara yfir það hér. Danir hafa myndað þjóðarsamstöðu um að móttöku fólks sem er að leita að ókeypis framfærslu verði hætt og þeir efla eftirlit og þrengja reglur þar um. Þurfum við ekki að læra af þeirri reynslu? Þurfum við ekki að skoða reynslu annarra þjóða af því að opna landamæri sín? Það er alltaf svo að það leynast einhverjir með sem eru ekki æskilegir í slíkar heimsóknir. Lögfræðingar hafa bent mér á að í frumvarpinu eru frestir til málskots ansi ríflegir. Það þjónar engum tilgangi að hafa það þannig.

Það er mikilvægt að ræða þessi lög, að þau fái eðlilega þinglega meðferð og umfjöllun meðal þjóðarinnar. Innflytjendur munu væntanlega alltaf koma til landsins og við tökum á móti þeim. Til þessa höfum við gert það opnum örmum. En við verðum að stjórna umferðinni. Það er ekki hægt fyrir litla fámenna þjóð, fámennan vinnumarkað, mennta- og heilbrigðisstofnanir að búa við holskeflu innflytjenda sem við ráðum ekki vegna þeirra laga sem við erum að setja. Ég er ekki að segja að það verði svoleiðis, en við þurfum að hugsa hvað getur gerst.

Það er enginn munur á því hverja við bjóðum velkomna til landsins okkar eða inn á heimil okkar. Landið er heimili okkar og þangað eru allir velkomnir sem vilja tileinka sér gildi samfélagsins og aðlagast menningu okkar og siðum. Ég vona að við gefum okkur tíma til að ræða þetta stóra mál og þetta mikla frumvarp. Það er mikið af fólki búið að leggja mikla vinnu á sig, þverpólitísk nefnd, skipuð þremur fulltrúum minni hlutans og tveimur frá meiri hluta, hefur unnið marga mánuði að frumvarpinu. Ég er klár á því að það fólk hefur allt lagt sig 100% fram í þeirri vinnu. En ég tel og þær ábendingar sem ég hef fengið segja mér að við ættum að fara varlega og gefa okkur lengri tíma til að afgreiða þetta mál.