145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

útlendingar.

728. mál
[22:56]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég verð óneitanlega að bregðast við orðum síðasta ræðumanns; það er rétt að við höfum öll rétt á því að hafa okkar skoðanir. Mér þykir miður þegar verið er að tala um að einungis sé hægt að gera eitt en ekki annað. Talað er um að við getum ekki sinnt fullorðna fólkinu okkar, eldri borgurum eða öryrkjum, sæmilega; það er verið að tengja þetta saman, þ.e. eldri borgara og stríðshrjáð fólk. Það þykir mér ekki góður samanburður, ég verð að segja það. Ég hef ekki trú á því að við fáum yfir okkur holskeflu af innflytjendum vegna þessara laga. Þjóðin eldist mjög hratt. Það er ljóst að komandi kynslóðir eru ekki það stórar að þær geti séð um okkur. Ég held því að samfélag okkar hafi ljómandi gott af því að fá hér inn margvíslega menningu og margvíslega siði; að fólk læri að lifa í sátt og samlyndi við okkur og við við það, innflytjendur sem kjósa að setjast hér að. Ég á eftir að ræða tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda, það eru nokkrir kaflar um flóttafólk og móttöku þess, um vinnumarkaðinn, um fræðslu og ráðgjöf sem ég vona svo sannarlega að sé komin af stað en sé ekki bara í farvatninu.

Virðulegi forseti. Þetta er langt ferli og þess vegna fannst mér líka sérkennilegt þegar hv. þingmaður, sem hér talaði, vildi gefa þjóðinni tækifæri til að kynna sér málið. Þetta er mál sem hefur verið lengi í farvatninu, byrjaði í tíð síðasta innanríkisráðherra, hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Síðan fer af stað þverpólitísk nefnd undir forustu hv. þm. Óttars Proppés þar sem reynt er að verða við þessu sterka kalli í samfélaginu og í heiminum varðandi þau mál sem við stöndum frammi fyrir. Sem betur fer erum við komin hingað og höfum náð að lenda hér máli sem ég er viss um að er til bóta. Ég vil nefna það hér að hv. formaður allsherjarnefndar, Unnur Brá Konráðsdóttir, hefur verið í öndvegi í vinnu nefndarinnar og hefur, að mínu mati, unnið mjög góða vinnu með nefndarmönnum og öllum þeim gestum sem við höfum fengið inn; mjög stór hluti þess fólks sem kemur að þessum málum hefur komið skoðunum sínum á framfæri til nefndarinnar. Ég sé því ekki að það hefði breytt neinu að málið hefði legið í feltinu í sumar.

Formaðurinn fór aðeins yfir allflestar breytingarnar. Mig langar að fara aðeins út í það sem snýr að því að vera hagsmunagæslumaður barns og það sem er tengt því. Breytingar eru gerðar í þá átt að skilgreina hvað felst í þessu hugtaki og hvað það er sem barn þarf til að fá þá aðstoð sem nauðsynleg er á meðan mál þess er til meðferðar hjá yfirvöldum. Hér er líka mjög mikilvægur þáttur þar sem gert er ráð fyrir að börn eigi rétt á því að á þau sé hlustað og að taka eigi ákvarðanir með hagsmuni barns að leiðarljósi. Rétturinn til að tjá sig er fortakslaus og ekki háður neinum skilyrðum. Það er mjög mikilvægt að hlusta á börn og ungt fólk sem kemur til landsins, hvort sem það kemur fylgdarlaust eða með foreldrum, og leyfa skoðunum þeirra að heyrast.

Hvað varðar meðferðarreglur í málum um alþjóðlega vernd leggur nefndin áherslu á að skýra rétt hvers umsækjanda sem og að hver og einn sé metinn á einstaklingsgrundvelli, óháð því hvort hann sækir um einn eða hvort hann kemur inn sem hluti af fjölskyldu. Það er eitt af því sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur lagt ríka áherslu á og nefndin tók undir það. Hér er líka breyting er varðar aldursgreininguna sem hefur verið frekar umdeilt ákvæði. Nú er því bætt við að börnin sjálf, börnin eða unga fólkið, eða lögregla geti óskað eftir slíkri aldursgreiningu en ekki eingöngu Útlendingastofnun. Búið er að skilgreina hugtakið barnaverndaryfirvöld og Barnaverndarstofa kemur til með að verða miðlæg stofnun sem heldur utan um þennan málaflokk. Ég held að það sé skynsamlegt vegna þess að þá byggist upp ákveðin sérþekking til að takast á við málefni þess hóps sem hingað kemur. Í raun er þá verið að tryggja hagsmuni barnsins, að byggt sé á réttum forsendum, hvort sem um er að ræða alþjóðlega vernd og dvalarleyfi eða að til brottvísunar gæti komið. Þetta er atriði sem ég held að styrki málefnagrundvöll og umsóknir barna.

Flóttamenn og vernd gegn ofsóknum — þá er verið að leggja áherslu á að umsækjandi hafi slík sérstök tengsl við landið að nærtækt sé að hann fái vernd hér á landi og sérstakar ástæður mæli með því að taka skuli mál hans til efnismeðferðar. Þá detta manni í hug málin sem hafa verið til umfjöllunar og síðast hér í þinginu í dag. Nefndin leggur til breytingar þar sem verið er að tala um að meta þurfi bæði aðstæður einstaklings og ástand í því ríki sem senda á hann til. Hér þarf líka eitthvað að breytast í framkvæmd. Það er mjög mikilvægt að það haldist í hendur við hugsun þessara laga. Hér er farið betur ofan í það hvað það telst að vera flóttamaður og vísað í að ekki er gerður greinarmunur á hernaðarlegum og borgaralegum skotmörkum. Ég held að það sé líka til að styrkja þetta mál.

Í umsögn Alþjóðaflóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Rauða krossins kom fram gagnrýni á tímaskilyrði fyrir umsóknir um fjölskyldusameiningar. Það var rætt hér af hálfu nefndarmanna, þ.e. þingmannanefndarinnar, við 1. umr. Þessu hafði verið breytt frá því að þingmannanefndin skilaði af sér. Nefndin tók undir það og breytir þessu til baka, sem sagt aftur til þess sem þingmannanefndin hafði lagt til. Það er afar mikilvægt ákvæði. Það er líka verið að tala um að útlendingur sem á íslenskan ríkisborgara að foreldri; það voru líka tímamörk þar, að viðkomandi þyrfti að vera hér á landi í tvö ár til að geta öðlast ótímabundið dvalarleyfi. Nefndin bendir á að í ákvæðinu er ekki mælt fyrir um hvenær útlendingurinn þarf að hafa haft dvalarleyfi og leggur til breytingu þar að lútandi. Við ræddum mikið um atvinnuþátttöku og dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki. Þá er kannski fyrst og síðast hugsað um skort á vinnuafli í tilteknum sérfræðistöðum, en auðvitað getur það átt við um aðra atvinnuhópa líka. Í 4. mgr. segir að vegna fjölskyldusameiningar eigi ekki að veita lengri dvalarleyfi en til eins árs þegar fjölskyldumeðlimur sem umsóknin byggist á er hér á landi vegna þessa starfs, sérfræðistarfs. Nefndin telur engar forsendur til að takmarka gildistímann með þessum hætti, þ.e. við þessi tvö ár. Það er líka mikilvægt varðandi dvalarleyfi fyrir börn; þ.e. að barn sem fær dvalarleyfi fyrir 18 ára aldur þarf miðað við gildandi lög að endurnýja dvalarleyfi sitt, en það breytist með þessu, þ.e. fylgdarlaust barn.

Ég held að svona stóra málaflokka eins og við höfum verið að ræða í allsherjar- og menntamálanefnd — við höfum verið að fjalla um dómstólana, við höfum verið að fjalla um fangelsismálin o.fl. — hefði að mörgu leyti verið áhugavert að vinna með svipuðum hætti og gert var með útlendingalög, þar sem þverfagleg og þverpólitísk aðkoma er til staðar. Ég held að það gætu verið framfarir fyrir þingið og þjóðina ef okkur auðnaðist að vinna þannig með fleiri stóra málaflokka.

Virðulegi forseti. Ég tel frumvarpið jákvæðara en gildandi lög; að mannúð og mannréttindi fá meira vægi. Við 1. umr. málsins sagði hv. þm. Svandís Svavarsdóttir að tónn í löggjöf væri líka mikilvægur. Það er það sem skín í gegn, jákvæðari nálgun á málefnið. Þó að við hefðum viljað sjá meiri og ítarlegri nálgun í því þá er þetta samt áleiðis. Auðvitað eigum við að halda því til haga. Það má segja að svona frumvarp geti á rósturstímum aldrei verið annað en lifandi plagg. Það er ekki ólíklegt að eitthvað þurfi að endurskoða þegar lögin taka gildi. Þegar við setjum svona lög þá segjum við um leið hvernig samfélag við viljum byggja, og við vinstri græn mundum vilja ganga enn lengra en hér er gert, við drögum enga dul á það. En þetta er klárlega spor í rétta átt. Þess vegna mun ég að minnsta kosti fylgja því til enda. Frumvarpið gengur út á það að skýra réttarstöðu og réttaröryggi útlendinga. Við erum að reyna að styrkja stöðu fólks sem nauðbeygt þarf að sækja um alþjóðlega vernd og fólk sem hefur ekki ríkisfang á þá réttinn samkvæmt alþjóðalögum. Í ljósi þess sem fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni þá er eins og fólk gleymi því að þjóðflutningar hafa áður átt sér stað í Evrópu. Það fór ekki allt á hliðina í þeim löndum og hjá þeim þjóðum sem tóku við fólki eftir slíkar hörmungar. Ríkar þjóðir í Evrópu eiga að taka vel á móti fólki. Við kennum okkur við velferðarsamfélag og eigum að vera í fararbroddi með löggjöf þar sem mannúð er höfð að leiðarljósi.

Virðulegi forseti. Auðvitað er ljóst að fín lína er milli þessara andstæðu sjónarmiða sem við þekkjum, bæði hér heima og í löndunum í kringum okkur, og hafa því miður birst í pólitíkinni hjá flokkum, bæði hérlendis og erlendis, í rasískum viðhorfum þar sem gert er út á ótta vegna þess að flóttamannastraumurinn er mikill sem við okkur blasir vegna stríðsátaka. Við megum aldrei gleyma því að við erum að tala um fólk eins og okkur, sem hefur flest þurft að leggja líf sitt og limi í hættu við að reyna að bjarga sér eða komast hjá því að verða hreinlega drepið í heimalandi sínu. Okkur sem velmegandi þjóð ber skylda til að standa vel að móttöku flóttafólks. Flestir vilja auðvitað vera heima hjá sér en eiga ekki annan kost en þann að flýja og treysta á þjóðir eins og okkar til að opna faðminn og skjóta yfir sig skjólshúsi.