145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

útlendingar.

728. mál
[23:11]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil sem nefndarmaður í hv. allsherjar- og menntamálanefnd blanda mér í umræðuna um þetta viðamikla mál. Ég vil þó byrja á því að hrósa hv. formanni nefndarinnar, Unni Brá Konráðsdóttur, fyrir gott og mikið starf við að leiða þetta mál í gegnum nefndina. Það eru allmargar breytingartillögur gerðar við málið, en þær sýna líka að það hefur verið vilji af hálfu forustu nefndarinnar til þess að taka við ábendingum og leggja málinu gott til í þinglegri meðferð. Það er líka full ástæða til að þakka nefndarritaranum, Kristínu Einarsdóttur, og starfsfólki ráðuneytisins sem hefur verið boðið og búið í hvívetna við að aðstoða nefndina við ýmis úrlausnarefni. Að öðrum ólöstuðum held ég að óhætt sé að nefna og þakka Írisi Björgu Kristjánsdóttur. Það veit ég að hv. formaður nefndarinnar vill gjarnan gera þótt hún hafi gleymt að nefna hana í ræðu sinni, en hún bað mig um að færa þakkirnar hér. Það geri ég af heilum hug, því að þetta góða starf hjá þessu ágæta starfsfólki fór ekki fram hjá neinum.

Ég tel að þetta mál hafi tekið breytingum til bóta og ég er fegin því að nefndin skuli taka undir meginsjónarmið þeirrar þingsályktunartillögu sem fylgdi málinu um stofnun embættis umboðsmanns flóttamanna og að því máli verði vísað til ráðuneyta til fýsileikakönnunar. Ég er líka fegin því að breytingum sem urðu á málinu eftir að þverpólitísk þingmannanefnd undir forustu hv. þm. Óttars Proppés skilaði af sér skuli hafa verið snúið við af nefndinni, bæði varðandi fjölskyldusameiningu og það t.d. að endurupptaka mál barna við 18 ára aldur, sem er algjörlega óþörf breyting að mínu viti og margra annarra.

Þá stendur eftir ósamræmi sem þetta frumvarp lagar ekki varðandi meðferð annars vegar kvótaflóttamanna og hins vegar hælisleitenda. Það er nokkuð sem ég geri fyrirvara við í bókun með áliti nefndarinnar, sem ég er annars aðili að. Ég tel mikilvægt að sama málsmeðferð eigi sér stað og sama atlæti sé í boði fyrir þá sem koma hingað í boði stjórnvalda, eins og hinir svokölluðu kvótaflóttamenn, og fyrir hina sem koma hingað á eigin vegum og eru hælisleitendur. Á þetta bentu ýmsir umsagnaraðilar fyrir nefndinni og þetta er fullkomlega gild og réttmæt ábending að mínu mati.

Þá hnykki ég í fyrirvara mínum líka á því sjónarmiði að skilja þurfi á milli annars vegar réttar- og hagsmunagæslu flóttamanna og hins vegar þeirrar rannsóknarskyldu og úrskurðarvalds sem Útlendingastofnun hefur. Þetta eru athugasemdir sem lúta að 4. og 30. gr. frumvarpsins.

Samkvæmt frumvarpinu er Útlendingastofnun falin öll málsmeðferð sem lýtur að flóttamönnum, bæði rannsóknar- og úrskurðarvald, en líka hagsmuna- og réttargæsla. Ég tel það ekki samræmast meginsjónarmiðum um góða stjórnsýsluhætti að hafa svo eðlisóskyld og ósamrýmanleg hlutverk á einni hendi. Ég tel hættu á að það geti skaðað hagsmuni og réttindi flóttamanna sem annars vegar eiga samkvæmt frumvarpinu að vera skjólstæðingar stofnunarinnar og hins vegar viðfang hennar. Þarna sé ég ákveðinn trúnaðarárekstur, hættu á trúnaðarbresti gagnvart þeim skjólstæðingum Útlendingastofnunar sem flóttamenn og hælisleitendur eru eftir að þeir hafa leitað hingað á náðir íslenskra stjórnvalda.

Eins og ég sagði snýr þetta að 4. gr. og 30. gr. frumvarpsins. Þau fyrirmæli sem þar koma fram lúta að hagsmuna- og réttargæslu fólks sem hingað leita, sem ég tel að eigi ekki að vera á einni hendi, þ.e. á hendi Útlendingastofnunar. Þar kemur tvennt til. Annars vegar rannsóknar- og úrskurðarvald stofnunarinnar sem stangast á við þetta, t.d. er hægt að afla upplýsinga hjá fólki og um fólk sem síðan eru notaðar gegn því af sama aðila, svo ég nefni eitt dæmi sem getur komið upp og stangast á við grundvallarréttindi fólks og mannréttindi.

Hins vegar vil ég nefna það hvernig stofnunin hefur fram til þessa bersýnilega beitt valdi sínu og þröngri lagatúlkun gagnvart útlendingum sem hingað leita. Nýjasta dæmið sem við höfum um það er mál Nígeríumannsins Ezes Okafors sem nú hefur verið fluttur nauðugur úr landi eftir að hafa búið hér í fjögur ár. Full ástæða er til þess að draga mjög sterklega í efa að fresturinn hafi verið liðinn sem stjórnvöld höfðu til að brottvísa manninum á grundvelli hinnar svokölluðu Dyflinnarreglu. En hann var sem sagt samt handtekinn og sendur úr landi.

Þetta mál skýrir að hluta til hvers vegna það er ekki æskilegt að þessi tiltekna stofnun, sem ítrekað kemst í kast við almenningsálitið vegna meðferðar sinnar á varnarlausu fólki sem hingað leitar, sé falið alræðisvald í málum útlendinga eins og þetta frumvarp gerir ráð fyrir.

Fyrst ég minntist á Dyflinnarreglugerðina þá hefur komið fram í umræðum um þetta mál, aðallega úti í samfélaginu, að menn virðast álíta að það sé með einhverjum hætti verið að lögfesta hana í þessu frumvarpi, en það er ekki þannig, a.m.k. ekki ef ég skil málið rétt. Dyflinnarreglugerðin er nefnd í athugasemdum við frumvarpið en það er ekkert í frumvarpinu sem festir hana í sessi eða eykur vægi hennar. Hún er bara reglugerð samkvæmt samningi sem Íslendingar eru aðilar að og stjórnvöldum er fullkomlega í sjálfsvald sett hvort þau beiti henni eða ekki, þau eru ekki skyldug til þess.

Ég vil leggja áherslu á, fyrst við erum farin að ræða það, að Dyflinnarreglugerðinni sé ekki sjálfkrafa beitt. Það finnst mér mikilvægt og ég hefði reyndar gjarnan viljað sjá þá afstöðu koma fram í nefndaráliti.

Svo ég nefni hluti sem ég sé til bóta þá eru þeir nokkrir. Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir fór ágætlega yfir þau atriði og sé ekki ástæðu til að endurtaka margt af því en tek undir það allt saman. Ég get kannski auk þess nefnt 97. gr. um takmarkanir á heimild til brottvísunar. Þar kemur fram að það skuli ekki ákveða brottvísun t.d. ef hælisleitandi eða innflytjandi er í atvinnuleit, innflytjandi þá í því tilviki, svo lengi sem viðkomandi geti lagt fram sönnun þess að hann sé í virkri atvinnuleit og hafi raunverulega möguleika á atvinnu. Þetta finnst mér gott ákvæði og líka mikilvægt sem kemur fram í 1. málslið 3. mgr. að brottvísun skuli ekki vera sjálfkrafa afleiðing þess að EES- eða EFTA-borgari eða aðstandandi hans leiti til kerfis félagslegrar aðstoðar. Það tel ég einnig mikilvægt réttindamál.

Í 102. gr. er fjallað um vernd gegn frávísun og brottvísun og takmarkanir um ákvörðun á brottvísun. Þar kemur t.d. fram að brottvísun skuli ekki ákveða ef hún felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Þetta finnst mér mikilvægt, ekki síst í ljósi nýlegra atvika sem komið hafa upp í samfélagi okkar gagnvart hælisleitendum.

Ég fagna því einnig að í frumvarpinu er hnykkt mjög á réttindum barna, sem er til bóta. Eins og við vitum kveður barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna á um að hagsmunir barns skuli ævinlega taka fyrsta rými þegar litið er til hagsmuna, en það hafa komið upp umdeilanleg atvik nýleg sem benda til þess að sú regla sé ekki nægilega virt. Á því er hnykkt í frumvarpinu og ég fagna því.

Það er því margt til bóta í þessu máli, þverpólitísk sátt um flest af því og augljós þverpólitískur vilji til þess að leiða þetta mál nokkurn veginn í samhljómi í gegnum þingið. Það er virðingarvert, mundi ég telja.

Málefni flóttamanna hafa verið okkur þingmönnum hugleikin, eins og almenningi í landinu, undanfarna mánuði og missiri. Fyrr í vetur var gerð skoðanakönnun sem sýnir að 60% landsmanna vilja að stjórnvöld grípi til marktækra ráðstafana í málefnum hælisleitenda og innflytjenda. Við Íslendingar þurfum að hætta að nálgast þennan málaflokk eins og innflytjendur, hælisleitendur og flóttafólk séu einhver aðsteðjandi vandi, eitthvað sem stemma þurfi stigu við okkar vegna. Málefni stríðshrjáðra flóttamanna t.d. eru mannúðarmál. Það er þungur flóttamannastraumur til Evrópu frá Sýrlandi og Afganistan og fleiri átakasvæðum og aðstæður fólksins og örlög margra þeirra sem ekki hafa komist alla leið hafa hreyft við öllum almenningi í álfunni. Það almenningsálit hefur sett vaxandi þrýsting á stjórnvöld í ýmsum löndum til að bregðast við á skynsamlegan hátt.

Lengi vel dró ríkisstjórnin lappirnar með hálfvolgum yfirlýsingum um að eitthvað yrði gert. Þetta frumvarp leysir í rauninni ekki þann vanda því að frumvarpið er umgjörð utan um málaflokkinn. Hér er ekki verið að taka á því hvort við fjölgum t.d. þeim flóttamönnum sem við tökum á móti. Engu að síður skiptir þessi umgjörð máli þótt ekki sé fjallað um þann fjölda sem stjórnvöld hyggjast taka á móti. Við munum væntanlega ræða síðar í kvöld þegar kemur til umfjöllunar framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda stefnumarkandi þætti sem koma fram í þeirri áætlun.

Stjórnvöld eiga auðvitað að hafa skýra stefnu og framtíðarsýn í þessum málaflokki. Það er ekki nóg að vísa til þess að fjalla þurfi um t.d. málefni hælisleitenda og flóttamanna af mannúð, vegna þess að leiðarljósið þarf líka að vera mannvirðing. Læt ég lokið máli mínu.