145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

útlendingar.

728. mál
[23:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í máli hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur set ég nafn mitt við þetta nefndarálit með fyrirvara og er fyrirvarinn um heildarsamhengi málsins, framkvæmd laganna og inntak stefnu stjórnvalda í málaflokknum í heild sinni. Það er vissulega heljarinnar frumvarp til umræðu sem hefur blessunarlega farið í aðdáunarvert ferli. Það er algjörlega til sóma hvernig þetta mál hefur verið unnið í mjög langan tíma með aðkomu allra þingflokka. Ég held að það sé lykillinn að því. Þótt fólk sé auðvitað ósammála um ýmis efnisatriði í frumvarpinu er þó meiri samhugur hér um þetta mál en víðast hvar í nágrannalöndunum þar sem málaflokkurinn er miklu umdeildari. Þó er fólk alveg með misjafnar skoðanir hérna.

Ég hef tekið eftir því með málaflokkinn að það er alveg ofboðslega mikill misskilningur meðal almennings á útlendingalögum og útlendingamálum. Ég þekki þann misskilning á eigin skinni eftir að hafa flutt úr landi til Kanada og talið það rétt minn að búa þar ef mér sýndist svo. Fljótlega kemst maður að því að það er sko alls ekki þannig. Það er flókið og erfitt og dýrt að flytja á milli landa. Fólk gerir það ekki að gamni sínu, jafnvel ekki þegar það hefur til þess heimild. En hér heyrir maður oft áhyggjur eða í það minnsta sjónarmið sem virðast benda til áhyggna af flóðinu, eins og ég kalla það, af fólki sem er ávallt yfirvofandi.

Vissulega eiga sér stað gríðarlegir fólksflutningar í Evrópu vegna borgarastríðsins eða stríðsins í Sýrlandi eða hvað maður á að kalla það úr þessu, þetta er orðið mjög sérstakt hvort sem maður lítur á það sem stríð eða borgarastyrjöld. En það virðist vera sjálfgefið í umræðunni meðal almennings að ef eitthvað er leyfilegt komi hingað milljónir manns og fara að gera það. Þetta er held ég almennt sterkt viðhorf í íslenskri menningu, að um leið og eitthvað er heimilt fari hellingur af fólki að gera það einungis vegna þess að það er heimilt. En það er þannig með fólk hér sem annars staðar að það vill almennt vera heima hjá sér. Ef maður spyr sýrlenskan flóttamann, hvort sem hann er í Tyrklandi eða hér, hvar hann vilji vera og hvert hann vilji fara þá segist hann vilja fara heim þar sem hann þekkir tungumálið, menninguna, þar sem fjölskylda hans er, vinir og kunningjar. Vandinn er oft sá, eins og í tilfelli Sýrlands, að það er einfaldlega ekki hægt, það er beinlínis og bókstaflega ekki líft á svæðinu. Þess vegna fer fólk.

Mér finnst næstum því gaman að benda fólki á að við erum aðilar að EES-samningnum. Samkvæmt honum mega 500 milljón manns, um 7% dýrategundar okkar, flytja hingað í dag. Fólk þyrfti að skrá sig eða eitthvað álíka eftir þrjá mánuði, en milljónir manns, hundruð milljónir manna mega flytja hingað í dag. Hvar eru þau hundruð milljónir manna? Þar sem þau vilja vera almennt; heima hjá sér. Þau vilja vera hjá fólkinu sem þau þekkja, vilja tala tungumálið sem þau kunna. Fólk almennt rífur ekki líf sitt upp með rótum og fer til framandi landa að gamni sínu. Fólk eins og ég gerir það kannski en flestir gera það ekki.

Óttinn við flóðið er því ýktur. Ég lít á það sem staðreynd. Þegar EES var til umræðu hér hafði fólk áhyggjur af Ítölunum. Það áttu að koma hingað milljónir Ítala. Þeir mega allir flytja hingað í dag. Allir Grikkir, allir með grískan ríkisborgararétt mega flytja hingað í dag. Hvar eru þeir? Þeir eru heima hjá sér. Þeir vilja ekki koma hingað þrátt fyrir Grikkland.

Slíkar áhyggjur eru þess vegna að miklu leyti óþarfar. En síðan er hitt að þegar kemur að fólksflutningum eigum við ekki, að mínu mati, að einblína svona mikið á töluna, hversu margir eru að koma, heldur hversu vel er hægt að taka á móti fólki, hversu auðvelt fólk á með að taka þátt í samfélaginu. Oft er talað eins og hingað komi hælisleitendur og lifi miklu betra lífi en Íslendingar og þeir fái ókeypis peninga og stundum heyrir maður fáránlegar upphæðir í því samhengi. Það er ekki rétt. Það er ömurlegt að vera hælisleitandi á Íslandi. Ég dreg ekki úr því að það er ömurlegt að vera í alls konar kringumstæðum á Íslandi, en kostnaðurinn sem fer í það að halda uppi hælisleitendum á Íslandi er kostnaðurinn við að halda þeim frá samfélaginu, kostnaðurinn við að heimila þeim ekki að taka þátt í vinnu t.d. Það hefur reyndar orðið einhver bót á því nýlega, skilst mér, en kostnaðurinn, sóunin sem felst í því að halda fólki frá samfélaginu er ótrúleg. Það er svona almennt um útlendingamál.

Þetta mál er að mínu mati enn sem komið er, eftir þó nokkuð mikla yfirlegu sem reyndar mætti alveg vera meiri, skárra en lögin sem við erum með í dag, enda lögin sem við erum með í dag hábölvanleg. Það er ekki bara við lögin að sakast. Ég hef oft haldið því fram þegar upp koma sum af þeim fáránlegu málum sem við heyrum af í fjölmiðlum að þá sé aðallega við lögin að sakast. Það er kannski vegna þess að ég hef aðallega einblínt á það hvernig lögin eru. En þótt ég standi við það að margt í núgildandi lögum sé algjörlega fráleitt þykir mér augljóst að það eru ekki aðeins lögin sem er eitthvað að, það er líka framkvæmdin. Ég ætla að segja það hérna, mér er sama þótt einhver verði móðgaður yfir því, að ég held að það séu viðhorfin innan stofnana á borð við Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála gagnvart málaflokknum sem beinlínis koma í veg fyrir að fólk fái að njóta þeirra tækifæra sem það annars gæti fengið að njóta. Ég held að það sé viðhorf alls staðar í stjórnsýslunni og alls staðar í kerfinu þar sem fólk upplifir sig ofan á vegg og það er að reyna að stoppa flóðið. Ég held að það bitni mjög illa á réttindum fólks, mjög oft og mjög alvarlega. Mér þykir það miður. Það eru ekki einungis lögin sem eru vandamál að mínu mati, það er líka hugarfarið innan stofnana landsins.

Það er ýmislegt í þessu frumvarpi sem ég er á móti. Ég er á móti hinum svokallaða lista um örugg upprunaríki. Ég held hann sé vondur. Ég skil ekki enn þá hvers vegna menn vilja beita slíkum lista til að meta bersýnilega tilhæfulausar umsóknir. Ef þær eru bersýnilega tilhæfulausar eru þær væntanlega bersýnilega tilhæfulausar. Ég átta mig ekki á hvers vegna þurfi að grípa til einhverra þjóðernislista til að ákvarða það. Sömuleiðis þegar menn hafa áhyggjur af þessum málum, sérstaklega af Albaníu þaðan sem fólk kemur og sækir um hér og segir jafnvel sjálft að það sé hérna af efnahagslegum ástæðum, af hverju má þá ekki tala um efnahagslegar ástæður? Af hverju þarf að tala um örugg upprunaríki? Við getum alveg haft sérreglur um það. Það eru sérreglur um mismunandi ástæður fyrir því að fólk kemur hingað.

Eins og ég segi er margt í þessu frumvarpi og auðvitað inntak stefnunnar sem ég er ekki sammála. Mér finnst að þetta eigi að vera miklu frjálslegra en það er. Það er ekki rétt að ég vilji opna landið fyrir öllum og afnema landamæri og eitthvað því um líkt. Kannski getum við farið að skoða það eftir 100–200 ár en það er hvergi nálægt því að vera raunhæft í dag, því miður. Mér finnst það miður en ég tel tilfellið vera að það sé ekki nálægt því að vera raunhæft eins og er. Ég segi enn og aftur því miður.

Ég er algjörlega sannfærður um að þetta mætti vera miklu opnara en það er. Mér þykir þetta frumvarp ekki komast mjög nálægt því að hafa það jafn opið og ég mundi vilja. En mér þykir gott að sjá í frumvarpinu að laga á ýmislegt sem er bara rugl í núgildandi lögum, sem er ekki beinlínis afleiðing af því hvernig fólk hefur hugsað sér að hafa þetta heldur þvert á móti afleiðing þess að fólk hefur ekki hugsað málin til enda. Það er fullt af furðulegum hlutum í ákvörðunarferli og niðurstöðum sem eru þar af því að fólk hefur ekki hugsað málin til enda. Eitt mjög skýrt og nýlegt dæmi er mál Ezes Okafors sem fólk vildi af einhverjum ástæðum ekki að væri hérna á meðan umsókn hans var til meðferðar. Það er engin ástæða til að senda manninn úr landi. Það þjónar engum hagsmunum, jafnvel ef maður tileinkar sér tímabundið þá afstöðu að hann eigi ekki að vera hérna, hann eigi ekki að fá þetta leyfi, þá er samt tilgangslaust að senda hann úr landi á meðan umsóknin er til meðferðar. Það þjónar engum hagsmunum, þjónar engum skoðunum og er ekkert nema hrein mannvonska sem ég þrátt fyrir allt trúi ekki alveg upp á flesta andstæðinga þess að gera lögin frjálslyndari en þau eru og þetta frumvarp frjálslyndara en það er. Ég held að fólk sé raunverulega hrætt við hluti sem eru einfaldlega ekki réttir. Ef það væri rétt að hingað gætu komið 500 milljón manns og allt í einu farið að lifa glæsilegra lífi en aðrir Íslendinga þá væri ég ekkert sáttur við það sjálfur. En það er ekki tilfellið, var aldrei tilfellið og verður að mínu mati aldrei tilfellið.

Ég held að mikið af andstöðunni við að hafa frjálslyndari útlendingalöggjöf sé byggð á hreinum misskilningi, alvarlegum, hræðilegum en heiðarlegum misskilningi á því hvernig lögin eru og hverjar afleiðingar eru af því að hafa þau frjálslyndari. Það minnir mig á að fólk heldur að lögin séu miklu frjálslyndari en þau eru. Hér kemur fólk jafnvel og segir að allir sem hingað koma, vilja aðlagast samfélaginu, borga skatta, vinna sína vinnu, læra tungumálið, séu að sjálfsögðu velkomnir. Það er bara ekki rétt, virðulegi forseti, hvergi nálægt því að vera rétt. Það er ekki satt. Það er ekki velkomið hérna, ekki samkvæmt núgildandi lögum og ekki samkvæmt þessu frumvarpi.

En ef fólk heldur að það sé svona frjálslynt skil ég aðeins betur að fólk gjaldi varhuga við því að ganga lengra í átt sem það heldur að sé óhófleg. En hún er það ekki. Það er ekki verið að opna landamæri meira. Það er verið að breyta mjög mörgum reglum og miklum lögum í kringum það hvernig allt þetta fyrirkomulag virkar. Margt af því er til bóta, sumt af því mjög til bóta og annað ekki svo mikið til bóta. Sumt af því staðfestir og lögfestir ýmislegt sem hefur annars verið samkvæmt hefð eða lagatúlkun eða einhverju því um líku. En hér er um gríðarlega stóran lagabálk að ræða og því erfitt að segja til um það hvort þetta sé gott eða slæmt, vegna þess að það er mikið af hvoru tveggja.

Það sem ég legg upp með er spurningin: Er þetta skárra en núgildandi löggjöf? Eftir mjög góða vinnu hv. allsherjar- og menntamálanefndar, þar sem mjög miklar umræður hafa farið fram um málið, eftir mjög ítarlega skoðun og samskipti við sérfróðara fólk um þessi mál og eftir þær ýmsu lagfæringar sem voru gerðar í nefndinni þá er ég þeirrar skoðunar núna að þetta frumvarp, verði það að lögum, sé skárra en lögin sem eru í gildi í dag. En eins og ég segi setti ég nafn mitt á nefndarálitið með fyrirvara og fyrirvarinn er um heildarsamhengi málsins, framkvæmd laganna, sem ég óttast að verði áfram til háborinnar skammar, og inntak stefnu stjórnvalda í útlendingamálum, sem mér finnst varla vera til staðar og vera mjög vond að því leyti sem hún er til staðar og mjög oft ómanneskjuleg.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Fólk sem vill kynna sér þetta mál almennilega þarf að eyða þó nokkrum tíma í að lesa frumvarpið sjálft, greinargerðina með því og síðan auðvitað nefndarálitið og breytingartillögurnar. Öll þau skjöl eru mjög umfangsmikil. Þetta er mjög umfangsmikil umræða. En ég fagna því, þrátt fyrir allt, að í málinu hafi verið ákveðið að gera þetta þannig að allir þingflokkar komi að því og í heildina þykir mér mjög til sóma hvernig nálgunin á málið hefur verið, vegna þess að ég veit að fólk er mjög ósammála um það.

Ég ætla ekki að segja meira að svo stöddu, virðulegi forseti. Ég vil að lokum árétta að gildistaka laganna er um næstu áramót. Ég geri ráð fyrir því að í þessu mikla máli og flókna sé ýmislegt sem þurfi að laga og býst fastlega við því að það komi í ljós að því gefnu að okkur takist að lögfesta þetta frumvarp, sem ég vona að okkur takist núna og geri reyndar ráð fyrir. Þá geri ég líka ráð fyrir því að hægt sé að laga það sem út af hefur brugðið áður en lögin taka gildi um áramót.

Ég verð að segja eins og er að stór ástæða þess að ég get hugsað mér að styðja þetta mál er að gildistakan er um næstu áramót, því að þá er enn þá tími til stefnu til að laga það ef þarna eru einhverjar jarðsprengjur, sem getur vel verið. Þetta er mjög stórt og umfangsmikið mál. Þrátt fyrir alla viðleitni nefndarinnar og öll þau ágætu vinnubrögð sem hafa verið stunduð í málinu er það samt þannig að þetta er mál sem maður er aldrei alveg búinn með. Það virðist sama hversu lengi maður skoðar tiltekin atriði í því, alltaf kemur eitthvað nýtt upp. Þetta er mjög lifandi mál og lifandi málaflokkur og mjög mikilvægt að við lítum ekki á þetta sem lokapunkt í umræðunni, enda held ég svo sem að enginn geri sér neinar grillur um það.

Ég ætla ekki að lengja þetta meira að sinni. Enn og aftur fagna ég vinnubrögðunum. Að öllu óbreyttu kem ég til með að styðja málið, en þetta er stórt mál sem mun þarfnast frekari skoðunar við eftir því sem tíminn líður. Ég vona að þegar fram líða stundir sjái fólk hversu mikil sóun er fólgin í því að láta alltaf eins og útlendingar séu sjálfkrafa byrði á samfélaginu. Hagkerfið er lítið annað en samansafn af fólki í efnahagslegum samskiptum af einhverjum toga. Ég er algjörlega sannfærður um að andstaðan við útlendinga, andstaðan við að hafa útlendingalöggjöf frjálslyndari en hún er sé í veigamiklum atriðum byggð á veigamiklum misskilningi, stundum á hreinni mannvonsku, eins og ég hef komist að, en sjaldnar en maður mundi halda.

Ég hugsa að ég ljúki ræðu minni á að segja það. Við eigum ekki að fordæma fólk fyrir skoðanir þeirra og við eigum ekki heldur að fordæma fólk fyrir að vera frá öðru landi eða fyrir að vilja koma hingað, hvort sem það er til að flýja stríð eða vegna þess að það vill vera á þessu landi, það er ekki vond ástæða, það er ekki illkvittni af hálfu útlendinga að vilja koma hingað bara vegna þess að þeir vilja koma hingað. Ef það er ástæða fyrir því að við viljum takmarka fjöldann, gott og vel, takmörkum fjöldann. En við gerum það ekki í dag. Við gerum það með reglum sem stundum bitna á ranglátan hátt á fólki og við gerum það mjög oft algjörlega að óþörfu, margir mundu segja yfirleitt. Ég hef ekki farið út í þá tölfræðivinnu og hef ekki gögnin til að meta það en ég veit að við getum verið frjálslyndari en við erum. Að mínu mati ættum við að vera frjálslyndari en lögin eru núna og sömuleiðis þegar kemur að þessu frumvarpi. En vinnubrögðin hafa verið til sóma miðað við flest önnur þingstörf sem ég hef komist í tæri við hingað til. Ég held að ástæða sé til að fagna því í það allra minnsta.