145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2016--2019.

764. mál
[23:43]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016–2019. Tillagan er lögð fram samkvæmt 11. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Hún byggist á tillögum ráðuneyta, Jafnréttisstofu og Jafnréttisráðs auk þess sem hliðsjón var höfð af fjölmennum umræðum á síðustu tveimur jafnréttisþingum, samanber 10. gr. jafnréttislaga.

Þingsályktunartillagan felur í sér verkefni sem ætlað er að vinna að markmiði laganna um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í íslensku samfélagi. Jafnréttisþing var haldið í fjórða skipti 25. nóvember 2015 og fylgir tillögu þessari skýrsla félags- og húsnæðismálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála sem lögð var fyrir þingið.

Virðulegi forseti. Hér á landi ríkir formlegt kynjajafnrétti. Konur og karlar búa við lagalegt jafnrétti og í samanburði við það sem gerist víða annars staðar í heiminum hafa á undanförnum áratugum verið stigin stór skref til jafnrar stöðu kynjanna á Íslandi. Til framfaraskrefa á sviði jafnréttismála má nefna verulega fjölgun kvenna á Alþingi og í sveitarstjórnum landsins. Lagabreytingar hafa verið samþykktar sem ætlað er að tryggja áhrif kvenna í stjórnum fyrirtækja og í atvinnulífi og styrkja baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi, vændi og mansali. Hvergi á Vesturlöndum er hlutfall kvenna á vinnumarkaði hærra en á Íslandi. Einkennandi fyrir íslenskan vinnumarkað er mikil kynjaskipting starfa. Konur og karlar gegna ólíkum störfum og kynbundið námsval og kynjaskipting milli starfsgreina er enn mjög áberandi. Þá eru karlar, eins og áður sagði, ofar í valdastigum atvinnulífsins en konur. Þó hefur á undanförnum árum dregið saman með kynjunum í launum og kynbundinn launamunur minnkar ár frá ári, sem vissulega er gleðiefni.

Staðan á vinnumarkaði sýnir þó að enn er langt í land á sviði jafnréttismála hér á landi og þrátt fyrir 40 ára gamla löggjöf um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla virðist kynferði enn takmarka frelsi einstaklinga. Við getum vissulega verið stolt af því að verma ár eftir ár efsta sætið á lista Alþjóðaefnahagsráðsins sem mælir kynjabil á alþjóðavísu en mikilvægt er að vera meðvituð um að í samfélaginu ríkir enn valdaójafnvægi sem ekki eru gerð fyllileg skil í úttekt ráðsins. Margt er þannig óunnið á sviði jafnréttismála.

Tillagan sem ég mæli fyrir í dag felur í sér sjöttu framkvæmdaáætlun íslenskrar ríkisstjórnar í jafnréttismálum og tilgreinir brýnustu verkefni ríkisstjórnarinnar á sviði kynjajafnréttis. Framkvæmdaáætlunin skiptist í sjö kafla og eru þar kynnt 21 verkefni sem áætlað er að framkvæma á gildistíma hennar. Kaflar áætlunarinnar endurspegla markmið stjórnvalda á sviði jafnréttismála og er áhersla lögð á að öll ráðuneyti hafi hlutverki að gegna við framkvæmd hennar. Er þessu fyrirkomulagi ætlað að tryggja að áherslur og forgangsröðun ríkisstjórnarinnar á sviði jafnréttismála birtist með skýrum hætti. Fyrst vil ég nefna að undir kafla sem hér er kallaður Stjórnsýslan er rætt m.a. um átak um samþættingu jafnréttissjónarmiða við alla ákvörðunartöku og stefnumótun í stjórnkerfinu í samræmi við jafnréttislög og áherslu á kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð. Í samræmi við 1. og 17. gr. jafnréttislaga skulu jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna í samstarfi við Jafnréttisstofu og undir forustu velferðarráðuneytisins móta heildstæða áætlun til fjögurra ára um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvarðanatöku ráðuneyta og stofnana ríkisins. Fyrirmynd verkefnisins er kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð. Stýrihópur þess verkefnis vinnur nú að innleiðingaráætlun fyrir öll ráðuneytin til næstu fimm ára.

Þá er í framkvæmdaáætluninni lagt til að skipaður verði starfshópur sérfræðinga sem stýri úttekt á þróun, framkvæmd og eftirfylgni íslenskrar löggjafar og stjórnsýslu jafnréttismála. Það þykir mikilvægt að kanna hvort markmið núgildandi laga og stjórnsýsla jafnréttismála sé í samræmi við alþjóðlega þróun og breytingar í íslensku samfélagi og hvort tímabært þyki að leggja til breytingar á gildandi löggjöf.

Á gildistíma áætlunarinnar verður áfram unnið að framkvæmd og eftirfylgni þeirra verkefna sem tilgreind eru í aðgerðaáætlun um launajafnrétti kynjanna og árangur þeirra metinn. Mikilvægt er að tryggja innleiðingu jafnlaunastaðalsins sem er séríslensk hönnun og fram fari markvisst kynningarstarf á vottun jafnlaunakerfa samkvæmt reglugerð um vottun jafnlaunakerfa fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins.

Í áætluninni má jafnframt finna sérstakan kafla í fyrsta skipti, kafla F, sem er nefndur Karlar og jafnrétti. Markmið þess kafla er að auka hlut drengja og karla í öllu jafnréttisstarfi og að kanna hvernig öll stefnumótun á sviði jafnréttismála geti betur tekið mið af samfélagslegri stöðu karla. Þar er lagt til að skipaður verði sérstakur aðgerðahópur um framkvæmd þeirra verkefna sem tilgreind eru í tillögu starfshóps sem skilaði af sér tillögum til velferðarráðherra árið 2013 um karla og jafnrétti. Þar má nefna m.a. að kanna skuli hvernig auðvelda megi körlum samhæfingu ábyrgðar á fjölskyldu- og atvinnulífi, rannsaka áhrif staðalmynda og karlmennskuhugmynda á náms- og starfsval drengja og, til að nefna fleiri þætti, að ráðuneyti mennta- og menningarmála, velferðarráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga undirbúi að hrinda í framkvæmd sérstöku átaksverkefni með það að markmiði að fjölga körlum í umönnunar- og kennslustörfum á grundvelli framkvæmdaáætlunar um uppbrot hins kynskipta vinnumarkaðar.

Hér má líka finna áherslur sem snúa að kyni og lýðræði í kafla sem er kallaður Kyn og lýðræði, þar sem hugað er að verkefnum sem vinna gegn staðalmyndum kynjanna í fjölmiðlum og efla hlut kvenna í fjölmiðlum og kvikmyndum. Nýlegar rannsóknir sýna að konur og karlar birtast ekki í jöfnum hlutföllum í fjölmiðlum og sú mynd sem dregin er upp af konum endurspeglar hvorki fjölda þeirra á vettvangi stjórnmálanna, í forustu atvinnulífsins né hátt menntunarstig íslenskra kvenna. Ég efast ekki um að margir sem starfa á þinginu urðu mjög hissa þegar þeir sáu tölur sem birtar voru á jafnréttisþingi um fjölda viðtala við konur og karla sem starfa á vettvangi stjórnmálanna. Við sjáum líka að kynjaskekkju gætir einnig meðal fréttamanna og fjölmiðlafólks og konur eru í minni hluta þeirra sem taka stefnumótandi ákvarðanir í fjölmiðlum þar sem þær eru enn í minni hluta stjórnenda og eigenda miðlanna.

Í framkvæmdaáætluninni er líka lögð sérstök áhersla á menntamál og kynin, en kafli E er kallaður Jafnrétti í skólastarfi. Sérstök áhersla er lögð þar á að jafnréttisfræðsla verði efld á öllum skólastigum og ríkari áhersla verði lögð á jöfn tækifæri til starfsnáms. Þá er ráðgert að gera rannsókn á stöðu kynjamenningar í háskólum og vinna aðgerðaáætlun gegn mismunun og staðalmyndum í háskólasamfélaginu. Á gildistíma áætlunarinnar er einnig lagt til að mennta- og menningarmálaráðuneytið beiti sér fyrir aðgerðum til að efla hlut stúlkna og kvenna í íþróttum. Aðgerðir skuli miða að því að konur hætti síður iðkun íþrótta og verði virkari þátttakendur í öllu íþróttastarfi, sem ég held að veiti svo sannarlega ekki af.

Í áætluninni er jafnframt lögð sérstök áhersla, í kafla D, á verkefni sem hafa að markmiði að útrýma kynbundnu ofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum. Kynbundið ofbeldi er lýðheilsuvandamál. Það er samfélagsleg ógn. Það er eitthvað sem við öll þurfum að taka höndum saman um að takast á við. Afleiðingar þess fyrir hvert samfélag eru efnahagslegar, pólitískar, félagslegar og heilsufarslegar. Til að ná árangri í að uppræta kynbundið ofbeldi er nauðsynlegt að ólíkar fagstéttir vinni saman, að vandi sé greindur á fyrstu stigum, og því nauðsynlegt að stjórnvöld hverju sinni vinni samkvæmt nákvæmum aðgerðaáætlunum.

Síðan vil ég nefna sérstaklega kafla G, um alþjóðastarfið. Við höfum litið svo á að við Íslendingar höfum verulegar alþjóðlegar skyldur á sviði jafnréttismála á alþjóðavettvangi. Stjórnvöldum ber að styðja jafnréttisbaráttu annarra þjóða, ekki síst þeirra sem standa hallari fæti, þar sem staðan er mun verri en hér á landi, fátækra þjóða, ekki síst þeirra sem búa á ófriðarsvæðum. Jafnréttisskóli Sameinuðu þjóðanna sem starfræktur er við Háskóla Íslands er dæmi um verkefni sem nýtist nemendum sem koma frá fjarlægum löndum og veitir þeim sem koma að námi og kennslu tækifæri til að auka skilning sinn og þekkingu á aðstæðum kvenna og karla og uppbyggingu samfélaga í kjölfar átaka.

Ísland hefur fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum og valfrjálsa bókun hans og hefur hvatt önnur ríki til að framfylgja ákvæðum hans að fullu. Ráðuneytin hafa átt gott samstarf við landsnefnd UN Women á Íslandi og árið 2014 undirritaði fulltrúi Stjórnarráðsins yfirlýsingu um að fylgja jafnréttissáttmála stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna. Í framkvæmdaáætluninni er kveðið á um sérstakt samstarfsverkefni umhverfis- og auðlindaráðsins og utanríkisráðuneytisins um að lögð verði áhersla á að rödd kvenna heyrist í loftslagsmálum og að ákvæði sem stuðla að samþættingu jafnréttissjónarmiða séu tekin inn í alþjóðlega samninga er varða umhverfis- og loftslagsmál. Íslendingar munu þannig halda áfram að styðja jafnréttisbaráttu á alþjóðavettvangi með margvíslegum hætti, ekki síst með því að vera framsækin þjóð og til fyrirmyndar í hvívetna á sviði jafnréttismála og með því að standa vörð um mannréttindi og framþróun í heiminum.

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að leggja til að tillögu um nýja framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og síðari umræðu.