145. löggjafarþing — 123. fundur,  2. júní 2016.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda 2016--2019.

765. mál
[00:17]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er liðið nokkuð fram á nótt og þess vegna sé ég ekki ástæðu til að lengja umræðurnar. Ég kem eiginlega hér upp í ræðustað, í andsvar við ráðherrann, til að lýsa ánægju minni með að áætlun af þessu tagi skuli vera komin fram. Hún er tímabær. Það svarar líka kalli tímans að leggja slíka áætlun fram, sem tekur á einu og öðru sem lýtur að móttöku flóttamanna, þ.e. hvernig við búum að fólki eftir að það er flutt hingað til landsins og hvernig við auðveldum því að aðlagast íslensku samfélagi og vera virkt á vinnumarkaði. Ég hefði kosið, eins og kom fram í málflutningi varðandi útlendingalöggjöfina, að það væri ein stofnun sem hefði það utanumhald með höndum, þ.e. að leiðbeina, aðstoða og gæta hagsmuna innflytjenda, bæði þegar þeir koma hingað og leita hælis en líka á fyrstu mánuðum og missirum eftir að þeir hafa fengið hér viðtöku. Það segir líka töluvert um menningarstig þjóðar hvernig við tökum á móti þeim sem til okkar leita og hvernig búið er um það utanumhald allt saman.

Ég er ánægð með að þessi áætlun skuli hafa litið dagsins ljós. Hún er tímanna tákn og til vitnis um þau viðfangsefni sem við sem þjóð þurfum að takast á við vegna þeirra atburða sem eru að eiga sér stað í veröldinni umhverfis okkur.