145. löggjafarþing — 123. fundur,  2. júní 2016.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda 2016--2019.

765. mál
[00:19]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hæstv. ráðherra svo og hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur um að mikilvægt sé að þingsályktunartillaga sem þessi um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda sé sett fram. Ég fagna því þó svo að það séu nokkur atriði sem mig langar engu að síður í stuttri ræðu að gera að umtalsefni.

Mig langar að byrja á að taka undir með hæstv. ráðherra að það sem fjallað er um í kafla C, um menntastoð, sé alveg gríðarlega mikilvægt mál. Ég hef hins vegar svolitlar áhyggjur af því að það sé ef til vill ekki nógu fast kveðið að því, ég mundi vilja sjá enn fastar kveðið að því hversu mikilvægt það er að íslenskukennsla sé góð og aðgengileg. Mér finnst að stjórnvöld eigi að vinna að því að innflytjendur geti sótt námskeið í íslensku til að mynda á vinnutíma sér að kostnaðarlausu. Ég held að það mundi hjálpa fólki mjög svo til að gera sig heimakomið í íslensku samfélagi.

Að sama skapi tel ég líka mjög mikilvægt að vel sé hlúð að móðurmáli fólks og ekki síst barna. Mér finnst gott að í lið C.2 sé fjallað um þetta, því að til að geta tekið þátt í samfélagi sem fullgildur samfélagsþegn er nauðsynlegt að hafa tungumál sem maður kann vel og skilur vel til að geta hreinlega hugsað flóknar og erfiðar hugsanir. Það er rosalega mikilvægt líka að geta átt í djúpum og innihaldsríkum samræðum við sína nánustu. Þar held ég að móðurmálið skipti alveg gríðarlega miklu. Mér finnst það reyndar fínt markmið sem sett er fram að árið 2018 eigi 75% nemenda með íslensku sem annað mál að fá stað- eða fjarkennslu í eigin móðurmáli. Ég spyr, þar sem þessi áætlun nær til ársins 2019, hvers vegna er látið staðar numið við árið 2018? Er ekki markmiðið að fara hærra en upp í 75%? Þetta er kannski eitthvert fínstillingaratriði sem nefndin mætti skoða vegna þess að þetta er alveg gríðarlega mikilvægt mál.

Í lið C.3 er fjallað um aðgerðir gegn brotthvarfi úr námi. Mig langar að setja dálítið spurningarmerki við það sem heyrir undir framkvæmdina þar sem segir að unnið verði að því að sem flestir framhaldsskólar bjóði upp á viðeigandi námstilboð. Ég velti fyrir mér hvað viðeigandi námstilboð sé. Ætti ekki stefnan að vera á það að innflytjendur ljúki sama námi og gildir um aðra Íslendinga í marga ættliði? Þarna finnst mér að þurfi að huga að orðalaginu og hverju við stefnum að. Þarna þyrfti að ganga lengra.

Í kafla D er fjallað um vinnumarkaðsaðstoð. Þar langar mig að fagna sérstaklega lið D.6 sem fjallar um bætt eftirlit með vinnustöðum. Við höfum oft fengið fréttir af því hvernig stundum er komið illa fram við erlent verkafólk. Stundum kemur fólk hingað tímabundið og telst ekki til innflytjenda kannski í þeim skilningi, en þetta gildir líka um innflytjendur, fólk sem þekkir kannski ekki réttindi sín með sama hætti og þeir sem hafa verið lengur hér og alist upp í samfélaginu frá barnsaldri. Mér finnst mikilvægt að þetta ákvæði sé inni.

Sömuleiðis vil ég fagna því sem sagt er í kafla E um flóttafólk og taka undir með ráðherra að liður E.1 um móttöku flóttafólks eftir hælisleit sé sérlega mikilvægur, því að ósamræmið og aðstöðumunur fólks eftir því í gegnum hvaða leið eða hlið það kemur til landsins er auðvitað hrópandi og brýnt að tekið verði á því að jafna þar, og vil ég taka skýrt fram að jafna þar upp, þ.e. bæta réttindi þeirra sem koma hingað, þá ekki sem kvótaflóttamenn heldur koma hingað fyrir eigin rammleik, að bæta þurfi stöðu þeirra til jafns við hælisleitendur.

Mér finnst einnig gott, eins og mælt er fyrir í lið E.4, að gera eigi rannsókn á stöðu og líðan flóttafólks. Mig langar hins vegar að segja að ég tel fyrirséð að svona rannsókn sé ekki nóg að gera bara einu sinni þó svo ég sé engan veginn að tala fyrir því að það þurfi að gera svona rannsókn oftar meðan þessi áætlun er í gildi, en mér finnst mikilvægt að segja við þessa umræðu og halda því til haga að það er auðvitað mikilvægt að gera svona rannsóknir með nokkuð reglulegum hætti einmitt til að fá gleggri upplýsingar um líðan og stöðu flóttafólks. Það getur auðvitað verið þannig að fólk sem kemur hingað á ólíkum tímum kemur náttúrlega inn í ólíkar samfélagslegar aðstæður. Þess vegna verður staða þeirra ólík og með því þarf að fylgjast.

Hæstv. forseti. Það er einn liður sem ég tel að nefndin þurfi að taka til sérstakrar skoðunar og gera breytingu. Það er liður B.7 um stuðning við konur sem hafa búið við heimilisofbeldi. Ég fagna því svo sannarlega að efla eigi stuðning við þær konur. En í markmiðsgreininni segir, með leyfi forseta:

„Að efla stuðningsnet kvenna af erlendum uppruna sem búið hafa við heimilisofbeldi og draga þannig úr heimilisofbeldi.“

Og draga þannig úr heimilisofbeldi. Hér er eitthvað brogað við orðalagið, því að ég get ekki skilið þessa setningu öðruvísi en svo að draga eigi úr heimilisofbeldi með því að efla stuðningsnet þeirra sem búið hafa við ofbeldi. Hvar eru þeir sem eru gerendur í því?

Ég er algjörlega sammála inntakinu í greininni, en þetta orðalag finnst mér vera það sem á ensku er kallað „victim blaming“, þar sem sökinni er í rauninni skellt á þolandann. Ég held að það sé alls ekki það sem hæstv. ráðherra gengur til með þessu orðalagi. Þess vegna vil ég beina því til nefndarinnar að taka þetta og breyta því þannig að það sé alveg ljóst að hér eigi að styðja þá sem beittir hafa verið ofbeldi, en stuðningurinn einn og sér eigi ekki að verða til þess að það dragi úr heimilisofbeldinu. Það þarf að gera með öðrum hætti.