145. löggjafarþing — 123. fundur,  2. júní 2016.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda 2016--2019.

765. mál
[00:33]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég fái að vitna í fylgigagnið, skýrsluna, er þar fjallað um ársskýrslu Kvennaathvarfsins fyrir 2014 þar sem bent er á að þetta háa hlutfall gefi ekki endilega vísbendingu um að konur af erlendum uppruna séu frekar beittar ofbeldi en íslenskar kynsystur þeirra. Þar segir að ástæðuna megi hugsanlega frekar rekja til þess að erlendar konur geti síður leitað til ættingja og vina en þær íslensku eða þær sem eru af íslenskum uppruna, og hafi þannig í færri hús að venda. Þá skiptir ríkisfang viðkomandi máli, en staða kvenna frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins, því að það er náttúrlega mikilvægt að hafa í huga hversu fjölbreyttur bakgrunnur er, sé í mörgum tilfellum verri. Það sem er oft mjög erfitt, og er eitt af því sem allsherjar- og menntamálanefnd hefur verið að fjalla um, er þegar konurnar eru jafnvel háðar maka varðandi dvalarleyfi. Samtök um kvennaathvarf greina jafnframt frá því að konur af erlendum uppruna dvelji jafnan lengur en konur af íslenskum uppruna í athvarfinu en tilgreina ekki hversu mikill munurinn er á dvalarlengd. Þannig að ég vonast til þess að nefndin fari vel yfir þetta, finni gott orðalag, þannig að það sé alveg skýrt hver sé vilji þingsins og okkar í velferðarráðuneytinu og hverju við viljum huga að.