145. löggjafarþing — 123. fundur,  2. júní 2016.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda 2016--2019.

765. mál
[00:41]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar og sérstaklega punktinn sem hún kom inn á varðandi mikilvægi þess að samfélög séu tilbúin og jákvæð gagnvart því að taka á móti fólki af erlendum uppruna, hvort sem við erum að tala um flóttamenn eða innflytjendur almennt. Við þekkjum það öll í okkar litla samfélagi hvað tengslanetið skiptir gífurlega miklu máli, hvort sem við erum að setja inn á Facebook hjá okkur að við séum að leita að íbúð eða fyrstu sumarvinnunni. Ef við hugsum bara til baka hvernig við fengum hana, þá var það mjög oft í gegnum vini okkar og kunningja í gegnum tengslanetið. Það er það sem fólk hefur ekki þegar það kemur í nýtt samfélag. Það er þannig sem samfélagið getur hugað að því hvað það getur gert, til dæmis að vera með skipulagða móttökuáætlun þar sem fjölskylda eða einstaklingar sem flytja inn í samfélagið fá strax tengilið, tengilið sem getur sagt þeim frá hlutum sem við veltum ekki mikið fyrir okkur, eins og bara hvað á að gefa í afmælisgjöf þegar afmælisboð eru. Við sem höfum búið í litlum bæjarfélögum þekkjum það að oft er ekki sagt að hús sé númer eitthvað, heldur að það sé húsið hennar Gunnu; við eigum bara öll að vita hvar húsið hennar Gunnu er. Það eru slíkir hlutir sem geta verið svo ómetanlegir og við áttum okkur ekki svo oft á því að það er þetta sem skiptir mestu máli. Við höldum kannski oft að það sé mikilvægara sem snýr að húsnæði, húsbúnaði, fatnaði, þessum veraldlegu gæðum, en það eru þessir hlutir sem skipta langmestu máli til að ná árangri í þessum málaflokki sem og öðrum.