145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

fullgilding Parísarsáttmálans.

[10:32]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Fyrir mánuði spurði ég hæstv. umhverfisráðherra um það mál sem er kannski hvað stærst þeirra mála sem fyrir þessu þingi liggja, sem er fullgilding Parísarsáttmálans. Hæstv. umhverfisráðherra fullvissaði mig um að unnið væri að málinu hörðum höndum. Væntanlega er málið á borði beggja ráðherra, hæstv. utanríkisráðherra og umhverfisráðherra. En málið snýst um að Ísland fullgildi Parísarsáttmálann um þau markmið í loftslagsmálum sem við höfum undirgengist. Komið hefur fram að þar munum við fylgja Noregi og hyggst Noregur ljúka fullgildingunni í þessum mánuði, þ.e. júnímánuði. Það þýðir að sáttmálinn mun öðlast gildi alþjóðalaga, þ.e. þegar viss fjöldi ríkja hefur lokið við fullgildingu hans mun sáttmálinn öðlast gildi alþjóðalaga, sem er gríðarlega mikilvægt til að við getum farið að vinna að þessum markmiðum, til að við getum farið að ná árangri, því að við erum í kappi við tímann þegar kemur að þessu stóra verkefni.

Það er reyndar mitt mat að ekkert mál sé stærra í alþjóðapólitík um þessar mundir en loftslagsvandinn. Þetta mál ætti þar af leiðandi að vera efst á borði hæstv. utanríkisráðherra. Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Hvernig gengur vinnan við fullgildingu? Hér hefur verið bent á að það kalli á ákveðna þýðingarvinnu og ákveðna yfirferð á íslenskum lagaramma.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er þetta þá ekki efst á borði þessara tveggja ráðherra? Megum við ekki eiga von á því að áður en þingið fer heim í haust munum við ljúka fullgildingunni?

Í ljósi þess að Norðmenn, sem við höfum fylgt í þessu máli, bæði hvað varðar markmiðin fyrir ráðstefnuna sjálfa í París og eins núna hvað varðar fullgildinguna, hyggjast gera þetta í júní væri ákjósanlegt að við værum ekki langt á eftir. Ég nefni það hér því að ég óttast að málið geti annars tafist og það má ekki, Ísland má ekki gera neitt annað en að vera í fararbroddi í þessum málum. Þetta er (Forseti hringir.) risavaxið mál þar sem við getum sett mikilvægt fordæmi.

Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra: Hvað getur hún sagt okkur um stöðu málsins?