145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

fjöldi kvenna í löggæslu og utanríkisþjónustu.

[10:48]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka svar hæstv. ráðherra. Mér þykir vænt um að heyra skoðun ráðherra á þessu máli. Auðvitað getur ráðherra hlutast til um þetta mál, sent skýr skilaboð um að þetta sé óásættanlegt, eða er þetta alfarið í höndum ríkislögreglustjóra? Mér finnst að það ætti að potast í þessu máli og reyna að breyta þessari ákvörðun. Það mundi senda þau skýru skilaboð að við sættum okkur ekki við svona lagað árið 2016.

Ég endurtek að mér þykir vænt um að heyra svona afgerandi afstöðu ráðherra í þessu máli. Bara í þessari viku sáum við frétt frá Stöð 2 þar sem íþróttafréttamennirnir, heill hópur af þeim, voru allir karlkyns og engum sem var þarna í þessum hópi eða ljósmyndara eða þeim sem settu auglýsinguna fram virtist detta í hug að þetta væri algjörlega út úr kú. Manni fallast hendur og ég hef áhyggjur af því að við séum í raun á hverjum degi að senda þau skilaboð út til stúlkna og drengja að karlmönnum sé gert hærra undir höfði í þessu þjóðfélagi. Það gengur ekki.