145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

sala Landsbankans á eignarhlut sínum í Borgun.

[10:55]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svarið. Það er alveg ljóst að allar reglur voru brotnar í þessu ferli, allar. Ég þakka fyrir það að skýrsla verði tekin saman og hún rædd hér, og ég vona að það verði sem fyrst. Gengið verður eftir því að það verði eigi síðar en þegar þing kemur næst saman, ef það verður ekki fyrr. En ég tók eftir því, í þessari umræðu um verðmætamatið, 19–26 milljarða — sem er stutt og laggott þannig að virði fyrirtækisins frá sölunni hefur fjórfaldast, á þessum stutta tíma — að hæstv. fjármálaráðherra sagði að honum væri ekki kunnugt um að þetta verðmætamat væri opinbert. Já, það kann að vera að Morgunblaðið hafi ekki haft það undir höndum, en Morgunblaðið fullyrðir að það hafi verið unnið af KPMG, því virta endurskoðunarfyrirtæki, og að það sé til. Ég hef áður sagt það, virðulegi forseti, að það væri nýjasta verðmætamatið. Ég hef dregið þá ályktun að verðmætamat hafi verið til þegar salan fór fram. (Forseti hringir.) Um það snýst málið, að fá það upplýst.

Sem dæmi um alvarleikann, virðulegi forseti, er að (Forseti hringir.) Bankasýslan skrifaði Landsbankanum bréf eða setti fram þá skoðun (Forseti hringir.) sína að málið væri alvarlegt og krafðist þess jafnvel að bankastjórinn yrði settur af. Þetta sýnir alvarleika málsins.