145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

mansal og undirboð á vinnumarkaði.

[11:00]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir fyrirspurnina. Ég tek undir það sem þingmaðurinn segir hér og samflokksmaður hennar hafði líka fyrr í vikunni spurst fyrir um þær fréttir sem hafa verið að koma fram að undanförnu, kannanir sem vísað er til, um að hér væri verulegt vandamál sem snýr að mansali.

Hv. þingmaður spyr hvað ég hyggist gera eða hvað ég hafi gert. Ég hef óskað eftir því að fá nánari upplýsingar um þessa könnun, hef óskað eftir því að mínir starfsmenn, sem eiga sæti í teymum sem snúa að mansali, samstarfsteymum, fari yfir þessar upplýsingar ásamt samstarfsaðilum. Þar eru verkalýðsfélögin lykilsamstarfsaðilar ásamt Vinnumálastofnun, Vinnueftirlitinu og ríkisskattstjóra. Það er nokkuð síðan þessir aðilar eða fulltrúar þeirra tóku höndum saman um aukið vinnustaðaeftirlit og hafa komið á framfæri ábendingum til lögreglunnar ef ástæða hefur þótt til. Í umfjöllun fjölmiðla um þau mál sem hafa komið upp má sjá árangur af þessu samstarfi. Ég svaraði því líka, sem snýr að Félagsmálaskólanum, að það sé alveg skýrt að ég styð ekki þessa tillögu, ég hef sjálf ekki lagt til að Félagsmálaskólinn yrði lagður niður. Ég hef hins vegar komið því mjög skýrt á framfæri við forustumenn verkalýðshreyfingarinnar að ef það er eitthvað meira sem ég eða mínar stofnanir geta gert verði það gert.

Ég tel líka í framhaldi af þessum upplýsingum, þegar við erum búin að fara yfir þær, að ástæða sé til að ég og innanríkisráðherra, sem ber ábyrgð á framkvæmdaáætlun hvað varðar mansal, förum yfir hvort ekki sé einmitt rétt að, af því að hún var til ákveðins tíma, lögð verði fram ný áætlun (Forseti hringir.) þar sem við byggjum á reynslu fyrri ára. Að sjálfsögðu er það þá viðkomandi ráðherra sem ber ábyrgð á því sem mundi þá leggja það til.