145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

mansal og undirboð á vinnumarkaði.

[11:04]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Til viðbótar við mitt fyrra svar vil ég geta þess að við höfum verið að undirbúa, í samstarfi við verkalýðshreyfinguna, sérstaka samstarfsyfirlýsingu þar sem við leggjum mikla áherslu á mikilvægi kjarasamninga og baráttuna gegn félagslegum undirboðum. Þar er hugað sérstaklega að sjálfboðavinnu og ýmsu starfsnámi sem menn hafa verið að fara betur yfir. Eitt af því sem ég hef þar nefnt er hvort rétt sé að setja af stað vinnu við að búa til skýran lagaramma utan um það. Ég hef reynt að kynna mér hvernig staðið hefur verið að þessu annars staðar á Norðurlöndunum þar sem ekki virðast vera skýrir lagarammar utan um sjálfboðavinnu eða starfsnám sem tengist sjálfboðavinnu; það er eitt af því sem verður að huga að.

Síðan höfum við verið að styðja við (Forseti hringir.) fræðslu og það hefur sannarlega skilað árangri eins og við sjáum. Mál eru að koma upp vegna þess að unnið hefur verið að þessum verkefnum.