145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

almennar félagsíbúðir.

435. mál
[11:11]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég ætla að gera grein fyrir afstöðu minni gagnvart frumvarpinu í heild. Mér finnst gríðarlega mikilvægt að við séum komin á þennan stað, það hefur verið mikið ákall í samfélaginu og mikil þörf er á að hér verði kerfi um húsnæði á félagslegum grunni. Mér finnst eiginlega ótrúlegt að verkamannabústaðakerfið hafi verið lagt niður og síðan líða öll þessi ár og nú erum við að taka á vanda sem hefur fengið að vinda lengi upp á sig. Því er mikilvægt að hafa í huga að þegar gerðar eru svona kerfisbreytingar getur það tekið svolítinn tíma að byggja upp nýtt kerfi. Þess vegna er mjög mikilvægt þegar þingmenn ákveða að gera veigamiklar grundvallarbreytingar að þeir hafi það í huga.

Ég fagna því að þetta frumvarp sé að verða að veruleika og vil hrósa nefndinni og hæstv. ráðherra fyrir að ná að hafa leitt þetta mál til lykta á Alþingi.