145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

almennar félagsíbúðir.

435. mál
[11:21]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér að lokum, nú þegar frumvarp um almennar íbúðir er að verða að lögum um almennar íbúðir, vil ég þakka kærlega fyrir gott samstarf við þingið. Ég vil líka fá að nota tækifærið og þakka öllum þeim sem hafa komið að vinnu og undirbúningi málsins áður en það kom inn í þingið. Þar vil ég nefna fyrst verkalýðshreyfinguna. Það hefur skipt alveg gífurlega miklu máli, sú vinna og sá þrýstingur sem verkalýðshreyfingin beitti í málinu. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu á aðstoðarmaður minn sitt líka eins og fjölmargir aðrir. Ég vil einnig nefna Samband íslenskra sveitarfélaga, gott samstarf við sambandið hefur skipt mjög miklu máli. Þar má nefna framkvæmdastjóra sambandsins. Þegar stór mál verða að raunveruleika eins og er að gerast hér í dag er það náttúrlega aldrei þannig að það sé einhver einn sem á heiðurinn af því. Það þekkjum við öll sem sitjum hér á þingi. Þetta er mjög stórt mál, skiptir verulega miklu máli til framtíðar litið og ég óska okkur öllum sem sitjum hér og þjóðinni allri til (Forseti hringir.) hamingju með málið.