145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[11:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég ætla að styðja þetta frumvarp um að heimilað verði að bjóða út smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju, og einhverjir mundu segja: Þótt fyrr hefði verið. Það er mikilvægt að gera allt sem mögulegt er til að tryggja sem best samgöngur til Vestmannaeyja, en þetta er vonandi liður í að takast á við þau mál og margt fleira þarf til eins og kunnugt er.

Óháð þessu er auðvitað löngu kominn tími á að endurnýja Herjólf, sem að vísu var ranglega í umræðum í gær sagður 26 ára gamall. Ef minni mitt svíkur ekki kom hann í gagnið á árinu 1992 og hefur staðið sig vel. Það er rétt að það sé sagt í þessum sölum því að öðruvísi var stundum fyrir honum spáð. En hann er barn síns tíma og kominn tími á endurnýjun og vonandi tekst með nýrri ferju og aðgerðum í Landeyjahöfn að láta þann draum rætast að samgöngurnar árið um kring, eða svo gott sem a.m.k., verði greiðari til Vestmannaeyja. Það er gríðarlega mikilvægt hagsmunamál fyrir eyjarnar og auðvitað fyrir landsmenn alla að þessar samgöngur séu í lagi.