145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[11:30]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að Landeyjahöfn hafi verið tekin í notkun fyrir sex árum er höfnin ekki byggð enn þá. Hún er lokuð í fimm mánuði á ári, 100 til 120 daga, og ný ferja mun ekki leysa þann vanda, því miður. Það er nauðsynlegt að byggja nýja ferju fyrir Vestmannaeyinga og fyrir samgöngur á milli lands og Eyja, en það er líka nauðsynlegt að sú ferja taki mið af þeirri getu sem höfnin hefur til að taka á móti skipinu sem flesta mánuði ársins. Eins og staðan er núna eru líkur á því að höfnin verði meira og minna lokuð í 100 daga á ári og þá þarf öðruvísi ferju en nú er búið að hanna til að sigla þær ferðir til Eyja. Þær verða erfiðar öllum sem munu ferðast með nýju skipi, þegar hann tekur upp úr í 3 metra öldu; segir okkur að skipið verður mjög erfitt til langrar ferðar, í Þorlákshöfn. Þess vegna mun ég sitja hjá við þessa afgreiðslu.