145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[11:31]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég mun sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu. Ég vil ekki standa í vegi fyrir þessu máli en ég hef verið þeirrar skoðunar að við hefðum þurft að taka stærri ferju, stærra skip sem hentar betur til siglingar til Þorlákshafnar yfir hörðustu vetrarmánuðina þegar ekki er fært til Landeyjahafnar. Það er alveg ljós að Landeyjahöfn er ekki orðin heilsárshöfn og því hefði verið vænlegri kostur að velja stærra skip. Það segir allt sem segja þarf að fjárlaganefnd sem ákveður þessa heimild í nefndaráliti fjárlaganefndar, sem afgreiðir þessa heimild, telur að það sé vissara að hafa 24 ára gamalt skip til vara ef þetta skip mun ekki reynast vel. Við verðum með 24 ára gamalt skip til vara ef þessi 5 milljarða fjárfesting gengur ekki upp.