145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

skattar og gjöld.

667. mál
[11:35]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við í Samfylkingunni höfum lengi lagt áherslu á lækkun tryggingagjalds sem mikilvægasta framlagið sem við ættum að leggja af mörkum í skattalækkunum og munum því greiða atkvæði með frumvarpinu. Við munum greiða atkvæði gegn þeirri tillögu meiri hluta nefndarinnar að hverfa frá fjármögnuninni með því að breyta samsköttunarheimildum milli hjóna. Það er mjög skrýtið að sjá stjórnarmeirihlutann vera tilbúinn að gera breytingar á frumvarpi frá fjármálaráðherra sem fela í sér að verið er að lækka skattbyrði best stæðu einstaklinganna um sem nemur 3,6 milljörðum. Þá peninga væri hægt að nota í mörg þjóðþrifaverkefni. Ég minni t.d. á að ríkisstjórnin er ekki búin að tryggja nema 1.500 milljónir af þeim 2.500 milljónum sem hún er þegar búin að lofa að eigi að fara í uppbyggingu á félagslegu húsnæði. Það væri svo víða hægt að nýta þessa fjármuni annars staðar og skynsamlegar en með skattalækkunum til þeirra sem mest hafa á milli handanna. Við munum þess vegna greiða atkvæði gegn þeirri tillögu.