145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

skattar og gjöld.

667. mál
[11:37]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við í Bjartri framtíð höfum lengi lýst undrun okkar á því að tryggingagjaldið hafi ekki verið lækkað. Atvinnuleysi er mun minna nú en þegar það stóð sem hæst og þegar þurfti að hækka tryggingagjaldið. Tryggingagjaldið hefði þurft að lækka samfara minnkandi atvinnuleysi vegna þess að það á að fjármagna svona afmarkaða þætti, afmörkuð verkefni á vinnumarkaði. Það hefur verið undanfarið lenska að misnota tryggingagjaldið sem venjulegan tekjustofn. Það er ekki gott. En hér er það lækkað og við styðjum það.

Það er alltaf gaman í efnahags- og viðskiptanefnd. Þar ríkir oft skemmtileg þverpólitísk ósamstaða. Við í Bjartri framtíð styðjum og stöndum að breytingartillögunni sem lýtur að því að viðhalda samsköttun sem meginreglu og að heimili með sömu tekjur skuli vera skattlögð á sama hátt. Samsköttun er meginregla í okkar kerfi. Við teljum að svo eigi að vera líka í þessu tilviki og kaupum ekki röksemdirnar fyrir því að hér skuli hjón og sambýlisfólk ekki njóta samsköttunar.